Hrafnaþing 2.jan. Saga Class á bráðamótttöku

Velti stundum fyrir mér slagnum milli heilbrigðiskerfisins og fjárveitingavaldsins,þar sem Landsspítalinn ( þoli ekki orðið háskólasjúkrahús) er jafnan í hlutverki skúrksins og þar með Magnús Pétursson fyrrverandi ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins,yfirskúrkur,sem forstjóri appartsins.

 

Ég hef tvívegis á rúmum tveimur mánuðum þurft að leita á bráðamótttökuna við Hringbraut,komið að Eiríkisgötumegin.Fengið þar svo frábærar mótttökur og afgreiðslu, að ég leyfi mér að efa, að slíkt bjóðist annars staðar á vesturlöndum. Síðast í nótt var ég í  stórri veislu , er ég fékk  svo heiftarlegt bólgukast í vélindað,væntanlega eftir helst til ríflega inntöku sælkerarétta,að er ég ætlaði að drekka kvöldteið mitt,var eins og vélindað logaði og ég fengi spark undir vinstra herðablað.Læknismenntuð vinkona mín ráðlagði mér að koma mér hið bráðasta í hjartalínurit.Hlýðinn og meðvitaður um orð fóstbróður míns Þórarins heitins Ólafssonar yfirlæknis á gjörgæslunni,að kirkjugarðarnir væri fullir af fólki,sem hefði ekki haft tíma til að leita læknis,tók ég leigubíl  og gekk  í mínum Armani smoking inn á Saga Class á Landsanum.

 

Þar tók á móti mér hjúkrunarfræðingur,Ingibjörg að nafni og síðan deildarlæknirinn Gísli Þór.Tveir afburða liðsmenn heilbrigðiskerfisins.Ingibjörg kom mér snarlega í hjartalínuritið,tók blóðprufu,kannaði súrefnismettun blóðsins,allt af hlýrri og  fumlausri fagmennsku.Sagði strax að hún sæi við fyrstu sýn engin hættumerki,en læknirinn kæmi von bráðar.Gladdi mig að heyra að hjartasérfræðingur á vakt væri stúdentsbróðir minn Guðmundur Þorgeirsson.Hans var þó til allra hamingju ekki þörf.Gísli Þór  deildarlæknir var eins og Ingibjörg fagmennskan uppmáluð og sagði er hann gekk hress og brosandi inn á stofuna “ Nú er það þessi Ingvi Hrafn”.Hann spurði mig í þaula um einkenni ,fyrri sjúkrasögu, lyf,sem ég tæki ,fjölskylduheilsufar og annað,hlustaði,ýtti og potaði og ég fann að ég gat treyst þessum unga manni. Ef hálftíma spjall eða svo,sagði hann mér að hann myndi líkast til útskrifa mig strax og hann hefði séð niðurstöður blóðrannsóknar á hjartaensímum,en bóka mig í magaspeglun eftir hálfsmánaðar lyfjakúr.

 

Þetta var nákvæmlega það sem gerðist,hjartaensímin voru neikvæð, sem þýðir jákvætt, pumpan var í lagi.Lyfseðill skrifaður, Ingibjörg kom og aftengdi mig frá línuritinu og tveimur klukkuastundum eftir að við hjónin örkuðum þarna inn í okkar fínasta pússi var ég útskrifaður.Mér var stórum létt og afar þakklátur fyrir að búa í landi,sem státar af einhverri bestu heilbrigðisþjónustu í heimi. Ég veit að heilbrigðisráðuneytið sýgur alla orku úr sínum ráðherrum í endalausum slag við fagfólkið.Fólk sem sækist sífellt eftir bestu tækjum og lyfjum til lækninga og fjármunum til að eyða biðlistum.Ég veit ekki hvar rauða strikið er á fjárveitingalínuritinu,þannig að allar bjöllur fara að hringja og Magnús Pétursson settur í gjörgæslu.Mér er næst að halda að Landsspítalinn nýti með ágætum sínar fjárveitingar til að líkna og lækna.Takk fyrir mig.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heilbrigðiskerfið er nefninlega ekki alslæmt - það vill stundum gleymast! Takk fyrir áminninguna.  

Guðmundur D. Haraldsson (IP-tala skráð) 3.1.2007 kl. 18:40

2 identicon

Hef aldrei hitt nokkurn mann ,sem hefur lasnast og þurft að leita á náðir  heilbrigðisstofnana, sem hefur talið að of  miklu fé væri varið til heilbrigðismála.  Sannleikurinn er sá, að enda þótt eitthvað megi að kerfinu  finna  , er  heilbrigðiskerfið á  Íslandi frábært og læknar og annað starfsfólk  með því besta sem gerist í veröldinni. 

Eiður Svanberg Guðnason (IP-tala skráð) 4.1.2007 kl. 20:26

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband