Fyrsta útsending ÍNN kl 16.34

Fyrsta útsending ÍNN var kl. 16.34.

 

Það hríslaðist niður bakið á mér klukkan rúmlega hálffimm,er fyrsta merkið frá ÍNN í tilraunasendingu fór út um víðan heim.Við vorum 4 í stúdíóinu á 2.hæð að Fiskislóð 14,auk mín Maríanna Friðjónsdóttir yfirsnillingur í sjónvarpstækni,Frosti Heimisson verkefnastjóri Mentis og Ingvi Örn Ingvason framkvæmdastjóri ÍNN ehf. Búnaðurinn okkar megin aðeins 2 fartölvur með vefmyndavélum.Á hinum endanum búnaður,sem tæknimenn Símans hafa gert kláran af stakri snilld og á mettíma.Ummæli mín á dögunum um einhverjar leyfar af ríkiseinokunarrisa, ét ég hér með ofan í mig.

 

Á morgun hefjast svo tæknimenn Sonydeildar Nýherja uppsetningu útsendingarversins og kannski tekst okkur um helgina í tilraunaskyni að senda út eins og eitt Hrafnaþing. Enda er mér orðið töluvert niðri fyrir eftir um 4 mánaða fjarveru frá ljósvakanum.Ég tala ekki um, nú er Hæstriréttur Íslands hefur opinberlega leyst niður um Johannessen og H.B. Snorrason með algerri sýknun í Baugsmálinu.Ekki seinna vænna en að Snorrason fengi stöðuhækkun.


Jafnaðarmannaleiðtoginn Þorgerður Katrín

Jafnaðarmannaleiðtoginn Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir  “varaformaður Sjálfstæðisflokksins”vinnur svo  hörðum höndum að þvíhygla ríkisstofnunum,að jafnvel gamlir Alþýðuflokksmenn fara hjá sér.

 

Nokkrum sólarhringum eftir að hún hefur við tárvota athöfn lofað Háskóla Íslands, einum háskóla, milljarða kosningaframlögum fram til 2011 , stendur hún stolt í pontu á Alþingi Íslendinga og lýsir yfir sigri Ríkisútvarpsins, sem hún hefur tryggt opið skotleyfi á einkarekna fjölmiðla og opinn aðgang að vösum skattgreiðenda.Hún hefur lögfest Hina opinberu Auglýsinga- og kostunarskrifstofu ríkisins, HOAKR.Minnir óneitanlega á orðið hokur. Allt þetta hefur hún gert með hausinn á kafi í sandi.Hreint ótrúlegt hve annars greind og góðviljuð kona hefur látið plata sig eins og gamall forsætisráðherra viðurkenndi einu sinni.

 

Páll Magnússon,sem svo eftirminnilega sveikst undan merkjum,sem helsti talsmaður einkarekinna fjölmiðla í 20 ár, mun nú fara hamförum á þessum markaði og einskis svífast í að raka fé að RÚV ohf. Enda hefur hann til þessa dags eins og síðustu forverar hans rekið apparatið með milljarða tapi, ef marka má umræður á hinu háa Alþingi. Ég geri ráð fyrir að honum beri að óska til hamingju. Kannski verður þetta til þess að RÚV getur ráðist í metnaðarfulla innlenda dagskrárgerð,en ekki byggja hlutfall innlendrar dagskrárgerðar

Á Kastljósi,sem er ekki lengur “ Verð að horfa á sjónvarp”.Byggist að mestu á maður situr á móti manni eða tveimur  þar sem oftar en ekki eru lagðar fram spurningar,illa undirbúnar. Svo er klikkt út með sníktu tónlistaratriði.Allt endursýnt um miðnættið og búið að redda innlendri dagskrárgerð. Ég fullyrði að klukkutíma Kastljósþættir,sem ég og aðrir fréttamenn bjuggum til ein í kringum 1980 eru í hærra gæðaflokki,en stjörnufansinn á RÚV býður nú upp á.En auðvitað er að finna perlur inn á milli

 

Er einhver hissa á því að grónir sjálfstæðismenn velti fyrir sér hvernig flokksforystan fór út af sporinu.Varla hefur heyrst né spurst til formanns flokksins og forsætisráðherra frá því að hann tók við embætti,illa fengnu af Halldóri Ásgrímssyni á sínum tíma.Síðast er til hans spurðist, eftir leiðinlegustu Kryddsíld þessarar aldar var hann sagður á heimslóðum í Noregi,en hann er hálf norskur eins og alþjóð veit á sama hátt og ég er kvart norskur af Tynesarætt í Sykelven.

 

Margir sem kjósa Sjálfstæðisflokkinn halda að ég sé einhver koppur í búri bláu handarinnar.

Hafa heyrt mig lofsyngja flokkinn á Hrafnaþingi,sem arkitekt og síðan vörð um mestu velsaældarár þessarar fámennu þjóðar.Sem stundum virðist í heild sinni komin í beinan karllegg af vondu fólki séra Árna Þórarinssonar, eins og hann grét eftirminnilega um á öxl Þórbergs um miðja síðustu öld eða svo.Ég verð bara að hryggja ykkur með því að ég á hvergi koppastað í Valhöll, þótt þar sé pláss fyrir marga marga. Horfi á þetta eins og aðrir Sjálfstæðismenn og hugsa með mér ,þetta hlýtur að vera pólitískur poker, það er verið að undirbúa eitthvað rosalega smart,sem við sjáum ekki fyrr en eftir 12. maí,hvernig símtölin rekjast eftir fyrstu tölur,hver hringir hvenær í hvern???

 

Það sem gerir málið enn furðulegra er að

aðstoðarflugmaðurinn í öllum þessum kratísku lendingum,er sjálfur Sigurður Kári Kristjánsson, lögmaðurinn snjalli frá Lex og fyrrum dáður leiðtogi og  kyndilberi ungra Sjálfstæðismanna í baráttu fyrir frelsi og einkavæðingu.Greinilega með höfuðið heldur dýpra í sandinum en hæstvirtur menntamálaráðherra.

 

Kannski eru þetta merki um þverpólitíska kvennlega samkennd á Alþingi,sem Ingibjörg Sólrún trúði Agnesi Bragadóttur fyrir í ágætu viðtali í Mogganum fyrir skömmu. Kannski verður það jafnaðarkonan Þorgerður Katrín,sem myndar næstu ríkisstjórn,með Ingibjörgu Sólrún,Kolbrúnu, Guðfríði Lilju, Valgerði og hinum stelpunum.Þverpólitísk Lysiströtustjórn.Er ég að grínast?

 


Eiga gjöf að gjalda


 

Eftirminnilegast gjöf sem ég hef fengið á ævi minni fyrir utan syni mína úr móðurkviði,var í febrúarlok 1958 á Núpi í Dýrafirði.Arngrímur heitinn Jónsson yfirkennari kom og færði mér pakka,sem hafði komið með bíl frá Ísafirði.Ég átti alls ekki von á neinu,nýkominn aftur vestur úr jólafríi. Kannaðist alls ekki við rithöndina.Flýtti mér út á vist til að skoða innihaldið.

Ég var búinn að reykja í heilt ár,byrjaði því miður 14 ára.Það var ekki mikið tóbak til á yfirráðasvæði séra Eiríks og við reykingaþrælarnir vanir að sníkja hver af öðrum og sjúga stubba þar til brann á vörum, eða drekka sósuna úr súrum pípum.

 

Ég hefði viljað gefa mikið fyrir að sjá svipinn á sjálfum mér og herbergisfélögunum,Didda Björns,Steina Lár og Stjána Þórarins, er upp út pakkanum kom eitt karton af Camel og 10 pakkar af Half and Half píputóbaki og slatti af kóngabrjóstsykri. Enginn miði, ekkert kort,ekkert um sendandann. Aðeins stórum stöfum Ingvi Hrafn Jónsson, héraðsskólanum Núpi í Dýrafirði.Þið getið ímyndað ykkur hvílíkur konungur í ríki mínu ég varð það sem eftir lifði vetrar. Ég sver að ég seldi dýrum dómi í pípur og klippti sígarettur í tvennt,en gaf mínum nánustu vinum. Það voru margir sem vildi komast í þann innsta hring.Ég lá hins vegar andvaka í heilan mánuð niðursokkin í heilabrot um þennan dularfulla velgjörðarmann.Ég held svo að það hafi verið í Páskasímtali frá mömmu,að hún skilaði til mín kveðju frá hálfgerðri fósturmóður minni Erlu Egilsson læknisfrú á Vífilstöðum og  spurði hvort ég hefði fengið brjóstsykurinn frá Skúla syni hennar. Ég veit ekki hversu oft á lífsleiðinni ég hef knúsað þennan vin minn og þakkað fyrir pakkan um árið. Þarna var hann orðinn togarasjómaður  og skip hans Þorkell Máni þurfti inn til Ísafjarðar einhverra erinda og þá datt honum í hug að sendi vini sínum pakka. Enda hafði ég elt hann á Núp, á sama hátt og ég elti hann til sjós, seinna þetta sumar. Hann var svona hálfgerð stórabróðurímynd mín,sem kenndi mér á bíl, er ég var 12 ára.

 

 Því nefni ég þennan fóstbróður minn Skúla Ólafsson, Geirssonar aðstoðaryfirlæknis á Vífilstöðum,að hann lést af völdum skyndilegs hjartaáfalls á laugardagskvöld aðeins 66 ára að aldri.Þar með eru fallnir í valinn á örfáum árum tveir af mínum kærustu bernskuvinum, en bróðir Skúla, Þórarinn yfirlæknir á gjörgæsludeild Landssítalans, lést fyrir örfáum árum öllum harmdauði. Eftir lifir systirin Elísabet Erla, læknisfrú í Kaupmannahöfn.Þessi fjölskylda öll var sem mín önnur,því  ég tók ástfóstri við frú Erlu eiginlega frá fyrstu minningu og mín beið alltaf uppbúið rúm,hvenær sem ég vildi koma upp að Vífilsstöðum,sem í kringum 1949 var langt langt upp í sveit.Á sama hátt og faðir minn prófessor Jón Sigtryggsson og Ólafur Geirsson voru veiðifélagar í Laxá í Aðaldal, voru þeir bræður veiðifélagar mínir í áratugi fyrir norðan og ég trega þá sem mína eigin bræður.

 

Ég velti því fyrir mér, nú þegar Guðni Ágústsson er búinn að rúlla Hjálmari Árnasyni upp, hví í ósköpunum hann tók ekki við flokksforystunni í stað þess að taka mark á grunnhyggju Halldórs Ásgrímssonar,sem galt dýru verði hrokafulla frekju sína að krefja Sjálfstæðisflokkinn um forsætisráðherrastólinn.Framsóknarmenn höfðu valið Guðna,sem sinn aðstoðarleiðtoga og Halldór  Ásgrímsson hafði ekkert umboð til að grípa þar frammí.Líklegast mun dómagreindarskortur Halldórs fara langleiðina með að eyða flokknum, eða dæma hann til margra ára áhrifaleysis í íslenskum stjórnmálum.Ég óska Hjálmari velfarnaðar og góðrar heilsu,hann var svo heppinn, er hann fékk hjartáfall í fyrra að fá það upp spítala ef ég man rétt.Hjálmar er góður drengur,sem hefur borið með sér þægilegan , hressan og jafnvel glaðværan blæ í stjórnmálaamstrið.Hans bíða vafalaust mikilvæg verkefni á heimaslóðum.

 

Það er eiginlega makalaust,að í hvert skipti sem Ingibjörg Sólrún heldur ræður, hvort sem það er í Borgarnesi eða Keflavík, hrynur fylgið. Að vísu er vafasamt að taka of mikið mark á fréttablaðskönnun helgarinnar vegna lágs svarhlutfalls,en hún er alla vega vísbending.Ég er ekki frá því að Össur sé á fjósbita.

 

Fyrstu tækin í útsendingar og framleiðslustúdíó ÍNN koma til landsins á þriðjudag og væntanlega byrjum við tilraunaútsendingar fyrir eða eftir næstu helgi.Þakka fyrir þann góða anda sem við feðgarnar finnum og mikinn áhuga. Það á svo eftir að koma í ljós hvernig okkur gengur að afla tekna í samkeppni við Auglýsingasölu- og kostunardeild íslenska ríkisins.Við ætlum að bjóða Sigga Kára og kannski hæstvirtum menntamálaráðherra og öðrum fulltrúum einkaframtaksins á alþingi í heimsókn vestur á Fiskislóð 14 aðra hæð og leita góðra ráða.Þau hafa varla mikið að gera meðan stjórnarandstaðan heldur alþingi í gíslingu.


Engin óbrúanleg gjá

Ég er sjálfsagt einn af fáum,sem ekki grætur manneklu á leikskólanum Marbakka í Kópavogi.Við amma fáum nefnilega Ingva Hrafn Hafsteinsson einn dag í viku,er hann er sendur í frí.Þegar ég skrifa þetta undir miðnætti sunnudagskvölds er hann farinn að lúlla í holu hjá ömmu sinni,en afi laumaðist fram til að horfa á Patriots og Chargers í ameríska fótboltanum. Mitt lið Green Bay var í ár hvergi nærri nokkru.Það er mikil Guðsblessun að eiga svona augastein og við látum hann stjórna okkur fullkomlega. Þykjumst stundum ætla að vera föst fyrir í einhverju,en hann veit að það er ekki agnar ögn að baki og fer sínu fram öryggið upp málað.Núna, þegar hann er tveggja ára síðan í nóvemberlok kemur eitthvað nýtt á hverjum degi í máli og skilningi.

 

Heyrðum frá pabba hans í kvöld frá Jedda,þar sem hann var að fara í háttinn eftir upp undir hálfs sólarhrings flug  á Boeing 747 frá Surabaya í Indónesíu.Nú er Air Atlanta að skila pílagrímunum heim,eftir að þeir hafa hreinsað sálu sína í borginni helgu,  Mekka.Næsta hálfa mánuð verður Hafsteinn og starfsbræður hans nokkrir staðsettir í Bangladesh,höfuðborginni Dakha,þar sem í hönd fara viðsjárverðir tímar.Áhafnirnar ferðast á milli flugvallar og hotels í fylgd alvopnaðra varða og geta sig ekkert hreyft  frá hótelinu, uns þeir fljúga aftur til Jedda,eftir lögbundin hvíldartíma. Útrás íslensku fyrirtækjanna fylgir þannig líka áhætta.

 

Búinn að lesa ágæt viðtal Agnesar Bragadóttur við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Geng út frá því að þetta sé fyrsta formannaviðtalið í röðinni í Mogganum og síðan fylgi hinir á eftir. Damerne först og allt þannig.Ekki hægt að lesa úr viðtalinu að þarna sé um að ræða flokksforingja með buxurnar á hnjánum fylgislega.

 

Maður veltir auðvitað fyrir sér hvort Mogginn sé að þreifa fyrir sér um hvort einhver möguleiki sé á að Geir Haarde og Ingibjörg geti starfað saman að loknum kosningum eftir aðeins 120 daga. Ég gat ekki lesið það út úr viðtalinu að þar væri nokkur óbrúanleg gjá.

Allir sem fylgst hafa með pólitík vita að lausn á umönnunarvanda 400 aldraðra er forgangs verkefni hjá sjálfstæðismönnum og þar hefur Vilhjálmur Þ Vilhjálmsson borgarstjóri farið fremstur í flokki,enda leitun að stjórnmálamanni,sem gerþekkir þessi mál, eins og hann gerir sem stjórnarformaður hjá Eir í fjölda ára.

 

Jafna stöðu landsbyggðar og höfuðborgarinnar,með átaki í samgöngumálum, háhraðatengingu og menntamálu, gæti allt eins staðið í stefnuyfirlýsingu Sjálfstæðisflokksins.

Evruhjalið er bara það, hjal.Flokksbræður Ingibjargar í Danmörku og Svíþjóð telja ekki minnstu ástæðu til þátttöku í myntbandalagi.Auðvelt að stjórnarflokkar skipi enn eina öfluga nefnd til að skoða kosti og galla evruupptöku. 

 

Ég sé enga úrslitakosti í því sem Ingibjörg segir um umhverfismál.Það eru ekkert minni umhverfissinnar í hópi sjálfstæðismanna en Samfylkingar. Auðvitað höldum við áfram að virkja orkulindir fallvatna og háhitasvæða.Þjóðir heims standa í biðröðum eftir langtíma fjárfestingum. Hjá okkur standa fjárfestar í biðröðum. Lífskjaraskerðingarstefna Andra Snæs og Ómars Ragnarssonar á engan hljómgrunn,sem einhverju máli skiptir.Þrátt fyrir að einhverjar þúsundir manna hafi rölt með Ómari niður Laugaveg,meira vegna væntumþykju,en einhverri harðlínuafstöðu gegn virkjunum og iðjuverum.

 

Ég er ekki í vafa um hvert svarið yrði ef fólk væri spurt hreint út.Ertu tilbúinn til að taka á þig kjaraskerðingu gegn því að virkjum ekki meira?

 

 

 

 


Ekki svona kosningabaráttu plííííís!!!

Ef ég hefði ekki verið í notalegu valiumrússi eftir magaspeglun á Landsspítalanum hjá lækninum Sunnu og hennar aðstoðarkonum í morgun,hefði ég gubbað yfir helgislepjunni og marklausu upphafi kosningaloforðahamfaraflóðs frá Háskóla Íslands síðdegis.

 

Frú Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hæstvirtur menntamálaráðherra sögð hafa framkallað tár á hvörmum fjárþyrstra deildarforseta með rektor í fararbroddi í sjálfum hátíðasalnum.Hvergi minnst á þá staðreynd að eina vitræna leiðin til að Háskóli Íslands komist í hóp þokkalegra menntastofnana í nágrannalöndum,er að láta nemendur greiða skólagjöld, eins og gert er í öllum öðrum háskólum landsins.Báðar þessar ágætu frúr eru svo veruleikafirrtar að halda það að HÍ geti verið stykkfrí, er kemur að skólagjöldum.

 

Ég veit ekki hvort þetta er þráhyggja eða hvort á að flokka svona undir pólitíska skynsemi.Að það sé eðli málsins samkvæmt pólitískt sjálfsmorð að ræða skólagjöld svona rétt fyrir kosningar.

 

Ég ætla bara að vona það að Sjálfstæðisflokkurinn með nýjan og ungan framkvæmdastjóra ætli ekki að bjóða okkar upp á einhverjar raðuppákomur,þar sem ráðherrar flokksins lofa einhverjum andskotanum fram yfir þar næstu kosningar, árið 2011.Látum verkin tala, göngum frá framhaldsstefnuskrá um hvernig Sjálfstæðismenn ætla að tryggja framhald mestu velsældartíma í 1133 ára sögu þjóðar,hvernig við ætlum að auka enn frekar frelsi til athafna og tryggja að þeir sem minna hafa fái meira. Málið er ekki flóknara.

 

 Ekki fleiri Hátíðasalaruppistönd. Sjáiði fyrir ykkur Einar Kristinn hjá Hafró, Guðna Ágústsson hjá Norðlenzka,Árna Matt á morgunverðarfundi hjá Viðskiptaráði,Jónínu Bjartmarz í Vaglaskógi,Valgerði Sverrisdóttur í Alþjóðahúsi ,Magnús Stefánsson hjá Mæðrastyrksnefnd,

Siv Frðleifsdóttir á skurðarborði á LHS , Geir Haarde innan um verkakarla,Björn Bjarnason í klefa á Litla Hrauni ( náttúrlega bara í starfskynningu), Jón Sigurðsson á Þjórsárbökkum í gullpotti undir regnboga og Sturla Böðvarsson á tvöföldum þjóðvegi eitt. Allt þetta ágæta fólk með seðlabúnt í báðum höndum og öllum vösum.

 

Er til of mikils mælst að allir flokkar leggi fram skýrar stefnuskrár byggðar á raunverulegum möguleikum að nái fram að ganga.

 

Það er allt í lagi að tala um Evru og EES, ef fólk telur það raunahæfa kosti,en ekki framtíðartónlist. Kjósum um það. Hlífið okkur árið 2007 við hræsni og sýndarmennsku, eins og þetta 10 milljóna dollara árlega meinta ríkisframlag til eins háskóla.

 

Ég ætla að taka upp hanskann aftur fyrir íslenska heilbirgðiskerfið.Það er eitt það flottasta í heimi. En þar gera menn mistök, fólk meira að segja deyr vegna mistaka lækna og annarra starfsmanna heilbirgðiskerfisins. Það vegna þess að það er mannlegt að gera mistök.Góðu verkin sem unnin eru, eru hins vegar þúsundföld.Mogginn á að skrifa leiðara um þau,en ekki ein mistök,sem til allra hamingju leiddu til betra lífs en ekki dauða.


Hrafnaþing 5. jan. Lífskjaraskerðingarstefna verðlaunuð af SUS


 

Ólíkt höfumst við að! SUS verðlaunar rithöfundinn og veiðifélaga minn Andra Snæ Magnason,höfund lífskjaraskerðingarstefnunnar,sem ég kenni við hann og Ómar Þorfinn Ragnarsson.Ekki nóg með það,verðlaunin heita Frelsisskjöldur og eru kennd við Kjartan Gunnarsson öðru nafni Kato gamli í hlýlegri uppnefningu.Sumir sem ekki hugsa jafn hlýlega til hans kalla hann Corleone.Meistaraleg tillaga Andra Snæs í bókarlok,er draumurinn breytist í martröð,að við eigum bara að selja aðgang að tómu Hálslóni.Þetta kalla SUSarar frjálshyggju,ég kalla það veruleikafirringu.Kannski þeim finnist það svona frjálst í fjallasal að heyra túristanna hrópa til að búa til bergmál í tómu Hálslóni. HOOOOOooooooooooooooooooooooooooooooooHOOOOOoooooooooooooooooooooooo.

HAAAAAaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaHAAAAAaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaa.

 

Kannski eru SUS ararnir að reyna með þessari hræsni að lokka Andra Snæ inn í forstofu íhaldsins, eins og kongulóin,sem reynd að hjala til sín fluguna inn í sína forstofu til að hvíla suðandi vængi. Gæti ímyndað mér að Vinstri grænir og Samfylking væru arfabrjáluð yfir því að rithöfundurinn hugumprúði skyldi þiggja þessi verðlaun kennd við sjálfa bláu höndina holdi klædda.

 

ÍNN undirbúningur á fullri ferð, búið að ganga frá tækjapöntun hjá Sony í 4 myndavéla studio með steiktum. Remolaði , saladi og frönskum svo flott verður það. Hugsanlega kemst fyrsta Hrafnaþing í loftið næsta föstudag,þó líklegra föstudaginn 19. janúar ef starfsmenn Símans gamla einokunarrisans,muna að þeir eru að vinna hjá ígulvirku einkafyrirtæki núna, en ekki skv 6-8 vikna einokunarbiðlögmálinu.Ég veit ekki hvort Binni. gamli fótboltafélagi minn af Klambratúni fyrir hálfri öld eða svo veit hversu svifaseinar sumar hans deildir enþá eru, í hugsun allavega.

 

Heyrði í Siv Friðleifsdóttur, hæstvirtum heilbrigðisráðherra áðan,var að þakka mér fyrir hlý orð til Landsítalans í síðasta bloggi. Sagði henni að ég hefði verið að spjalla við gamlan íhaldsþingmann yfir spilum í gær og okkur hefði borið saman um að Framsókn hefði gert reiðarinnar bommertu að kjósa ekki frú Siv í formannstólinn og verða þannig fyrsti flokkurinn til að velja konu í formannsstólinn. Úúúbbs!!!! Gleymdum Ingibjörgu Sólrúnu.Á hvað veit það?Held að það sé byrjað að fjara undan henni.meira segja farið að nefna Helga Hjörvar af öllum mönnum sem arftaka hennar.

 

Ég spurði hana hverning vorið legðist í hana.Hún sagðist eiga von á hörkuslag, en kviði engu.Mér og gamla íhaldsþingmanninum bar líka saman um að Framsókn ætti 9 til 10 þingmenn,stuðningsmennirnir fyndust bara svo illa í skoðanakönnunum, væru að mjólka eða í gegningum, er Gallup hringdi.

 

Skrítið að það hefur hvergi komið fram hvort Flugstoðir ohf. voru kúgaðar til hlýðni af Lofti Jóhannssyni og flugumferðastjóraklíkunni enn einu sinni.Verst að ekki var hægt að nota tækifærið til að losna við þetta lið,eins og Ronald Reagan gerði um árið og rak alla ameríska flugumferðarstjóra í verkfalli á einu bretti. Man ekki til þess að nokkurri vél hafi seinkað þar vestra.Hér erum við búin að sitja uppi með harðlínuhóp,sem hikar ekki við að ljúga sig veika

í nafni kjarabaráttu og saka lækna um harðræði og rangar heilsufarsgreiningar,er hópurinn er tekinn í bólinu.Mér er ekki rótt í flugvél á flugumsjónarsvæði þessarar stéttar.

 

 

 


Hrafnaþing 2.jan. Saga Class á bráðamótttöku

Velti stundum fyrir mér slagnum milli heilbrigðiskerfisins og fjárveitingavaldsins,þar sem Landsspítalinn ( þoli ekki orðið háskólasjúkrahús) er jafnan í hlutverki skúrksins og þar með Magnús Pétursson fyrrverandi ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins,yfirskúrkur,sem forstjóri appartsins.

 

Ég hef tvívegis á rúmum tveimur mánuðum þurft að leita á bráðamótttökuna við Hringbraut,komið að Eiríkisgötumegin.Fengið þar svo frábærar mótttökur og afgreiðslu, að ég leyfi mér að efa, að slíkt bjóðist annars staðar á vesturlöndum. Síðast í nótt var ég í  stórri veislu , er ég fékk  svo heiftarlegt bólgukast í vélindað,væntanlega eftir helst til ríflega inntöku sælkerarétta,að er ég ætlaði að drekka kvöldteið mitt,var eins og vélindað logaði og ég fengi spark undir vinstra herðablað.Læknismenntuð vinkona mín ráðlagði mér að koma mér hið bráðasta í hjartalínurit.Hlýðinn og meðvitaður um orð fóstbróður míns Þórarins heitins Ólafssonar yfirlæknis á gjörgæslunni,að kirkjugarðarnir væri fullir af fólki,sem hefði ekki haft tíma til að leita læknis,tók ég leigubíl  og gekk  í mínum Armani smoking inn á Saga Class á Landsanum.

 

Þar tók á móti mér hjúkrunarfræðingur,Ingibjörg að nafni og síðan deildarlæknirinn Gísli Þór.Tveir afburða liðsmenn heilbrigðiskerfisins.Ingibjörg kom mér snarlega í hjartalínuritið,tók blóðprufu,kannaði súrefnismettun blóðsins,allt af hlýrri og  fumlausri fagmennsku.Sagði strax að hún sæi við fyrstu sýn engin hættumerki,en læknirinn kæmi von bráðar.Gladdi mig að heyra að hjartasérfræðingur á vakt væri stúdentsbróðir minn Guðmundur Þorgeirsson.Hans var þó til allra hamingju ekki þörf.Gísli Þór  deildarlæknir var eins og Ingibjörg fagmennskan uppmáluð og sagði er hann gekk hress og brosandi inn á stofuna “ Nú er það þessi Ingvi Hrafn”.Hann spurði mig í þaula um einkenni ,fyrri sjúkrasögu, lyf,sem ég tæki ,fjölskylduheilsufar og annað,hlustaði,ýtti og potaði og ég fann að ég gat treyst þessum unga manni. Ef hálftíma spjall eða svo,sagði hann mér að hann myndi líkast til útskrifa mig strax og hann hefði séð niðurstöður blóðrannsóknar á hjartaensímum,en bóka mig í magaspeglun eftir hálfsmánaðar lyfjakúr.

 

Þetta var nákvæmlega það sem gerðist,hjartaensímin voru neikvæð, sem þýðir jákvætt, pumpan var í lagi.Lyfseðill skrifaður, Ingibjörg kom og aftengdi mig frá línuritinu og tveimur klukkuastundum eftir að við hjónin örkuðum þarna inn í okkar fínasta pússi var ég útskrifaður.Mér var stórum létt og afar þakklátur fyrir að búa í landi,sem státar af einhverri bestu heilbrigðisþjónustu í heimi. Ég veit að heilbrigðisráðuneytið sýgur alla orku úr sínum ráðherrum í endalausum slag við fagfólkið.Fólk sem sækist sífellt eftir bestu tækjum og lyfjum til lækninga og fjármunum til að eyða biðlistum.Ég veit ekki hvar rauða strikið er á fjárveitingalínuritinu,þannig að allar bjöllur fara að hringja og Magnús Pétursson settur í gjörgæslu.Mér er næst að halda að Landsspítalinn nýti með ágætum sínar fjárveitingar til að líkna og lækna.Takk fyrir mig.

 

 

 

 


Hrafnaþing 1.jan.Að fá að vera á öndverðum meiði

 

Gleðilegt ár ágætu bloggborgarar,gaman að feta sig fyrstu sporin á nýjum vettvangi,sem ég skil nú ekki almennilega ennþá,kann ekki að velja þá sem segja viltu vera memm,minnir á æskudaga,er maður var að velja sér vini eða vera valinn vinur.

 

Stefni að því að blogga Hrafnaþingsinnganginn 4 sinnum í viku þegar við förum í loftið á ÍNN,vonandi innan nokkurra vikna. Tækjafundur hjá Sonydeild Nýherja á miðvikudaginn og þá sjáum við hvort þeir geta verið búnir að koma tækjunum til landsins fyrir 19. jan, Bóndadag,þannig að fari saman að blóta Þorra og Hrafnaþingi.Hef fulla trú á að það takist og Mentismenn eru tilbúnir að senda merkið okkar út á veraldarvefinn , Breiðbandið og Adsl.

 

Hlakka til og kvíði í bland fyrir holskelfu pólitísks fjaðrafoks næstu 140 daga,áður en við göngum að kjörborði 12. maí.Held að það sé svolítið breytt landslag.Einhverjar þúsundir kjósenda hafa gengið til liðs við lífskjaraskerðingarstefnu Andra Snæs og vinar míns Ómars Ragnarssonar,sem virðast hafa náð að sannfæra þetta fólk um að við getum haft vel til hnífs og skeiðar með því að horfa  á eyðisanda og foráttu jökulfljót og fá hugmyndir.

 

Þetta mun verða í tísku einhver ár eða jafnvel áratugi þar til kreppir að á lands eða heimsvísu og fólk þarf fyrir alvöru að herða beltið, hækka skatta,lækka bætur og draga úr ríkisbúskap.

Fólk gleymir því í regnbogagullpottsæðinu  hér höfðu starfað áratugum saman nefndir,sem höfðu farið knékrjúpandi um heimsbyggðina í leit að fjárfestum í iðnaði á Íslandi.

 

Svo dettur hér inn,næstum fyrir algera tilviljun ,fyritæki ,sem er tilbúið í slaginn með milljarða dollara og úr holum sínum skríða úrtölumenn,sem helst vilja byggja ríkisbúskapinn á prjónum og árabátum og svo auðvitað hugmyndum.

 

Ég elska Ísland og tel mig harðan umhverfissinna.Ég byggi afkomu mína m.a.á að nýta eina af náttúruperlum Íslands , Langá á Mýrum , mér og Langárbændum til hagsbóta. Ég lærði að vera umhverfissinni við fótskör Ómars Ragnarssonar.Horfði hugfanginn á Stiklurnar hans og sá Ísland í nýju og heillandi ljósi.Allt í einu snérust ferðirnar norður í Aðaldal á hverju sumri, ekki um að komast sem fljótast á milli landshorna,heldur að drekka í sig myndirnir af hverju fjalli eða múla,dalverpi, mýrarfláka , firði og flóa.Fyrir það verð ég honum eilíflega þakklátur.

 

En á milli skildi, er ég skynjaði að þessi margfaldi afi,kannski langafi vildi ekki leyfa löndum sínum að byggja upp framtíðar velsæld komandi kynslóða með nýtingu landsins gagna .Ég horfði dapur á þinnan vin minn og samstarfsmann í leikaraskap fyrir framan myndavélar á “Örkinni” í Hálsalóni.En ég elska hann jafnmikið eins og við flest gerum en ég elska mest lýðræðið,sem tryggir að við getum verið á öndverðum meiði  af hjartans lyst.

 

 

 


Leiðin út úr Bagdað opin

 

Það eru blendnar tilfinningar að sjá myndskeiðin af síðustu mínútum í lífi  slátrarans frá Bagdað,sem hrópaði ókvæðisorð til umheimsins þar til fallhurð gálgans opnaðist undir blóði drifnum fótum hans og þaggaði niður honum endanlega.

 

Ég var í hópi þeirra sem fögnuðu ákvörðuninni um að ráðast inn í Írak vegna þess að framferði hans og geðsjúkra sona hans knúði mann til að trúa upp á þá öllu illu. Að þeir væru að smíða sprengjuna og eitthvað þaðan af verra.Svo kom náttúrlega í ljós að þetta voru bara blóðþyrstir sadistar,sem líklega hefði aldrei búið yfir því andlega atgjörvi að kaupa inn og láta smíða gereyðingavopn.

 

Svo kom líka í ljós að  Al kæda hafði á þessum þorpurum megnustu andstyggð og vildi engin samskipti, hvað þá eitthvert hryðjuverkaþjálfunarsamstarf.Morðingjar Al kæda komu ekkert til Íraks fyrr en þangað voru komnir langleiðina í 200 þúsund hermenn bandamanna,sem hægt var að byrja að sprengja í loft upp.

 

Yfirmaður vopnaleitarsveitar Sameinuðu Þjóðanna í Írak ,David Wise var professorinn minn og ráðgjafi í stjórnmálafræði við Wisconsin háskóla á árunum 1967-70,einstaklega skemmtilegur og harður nagli.Hann hundskammaði mig einu sinni í tíma fyrir að  bera í jakkabarmi stuðningsmerki við Nelson Rockefeller fylkisstjóra New York,sem sóttist yfir útnefningu til forsetaframboðs. Wise hélt því fram að ég ætti ekkert með að skipta mér af bandarískum innanríkismálum.Skemmst frá að segja að þar hitti skrattinn ömmu sína og við hrópuðumst á í 15-20 mínútur samstúdentum mínum til óstjórnlegrar kæti,enda var þetta síðasti tími á föstudegi og pöbbarnar biðu.Ég og Wise urðum hins vegar mestu mátar.

 

En þetta var út úr dúr,kjarni málsins var,að þegar innrásin var gerð Taldi Wise sig hafa gengið úr skugga um að engin gereyðingavopn væru í Írak,allar tafir og hindranir Husseins og hans hyskis fyrir vopnaleitarmenn SÞ voru bara sýndarmennska og leikur.Þeir voru eins og Hrafn Gunnlaugsson notar oft sem samlíkingu að setja saman rakettur við opinn eld.

 

Það er sannarlega mikil heimshreinsun af Saddam Hussein,en eftir sitja á annað hundrað þúsund hermenn bandamanna í jafn vonlausu verkefni og Vietnam var á sínum tíma.

Í minni bók er ekkert annað að gera en að koma sér í burtu frá þessu ólánslandi,þar sem trúbræður eru svo gegnsýrðir af   hatri og löngun til að drepa hver annan,að þeir verða að fá til þess góðan tíma og síðan hlýtur lýðræðið að byggjast á því að meirihlutinn ræður.

 

Vorum við blekkt til stuðings við innrásina? Ekki spurning! Bandarískar og breskar leyniþjónustur mötuðu sína leiðtoga á upplýsingum, sem þeir töldu að væru efstar á þeirra óskalistum  og dugðu til að mana þá upp í  raða sínum tindátum til innrásar.

 


Hrafnaþing um jól og fjárlög

Kominn frá Langárbökkum,þar sem er umhorfs eins og í maívorleysingum,bæði áin, Múlarnar og allt umhverfið vestan Hafnarfjalls.Þegar við renndum upp að  Sólvangi á Jóladag flaug upp af Stangarhyl stór fugl, Himbrimi eða Lómur,frekar en Fiskiönd, sást ekki almennilega í jólarökkrinu,sem var greinilega að háma í sig seiði upp við árbakkann,en þangað leita þau er flóð hleypur í Arnar. Við Langárbændur sjáum strax að miklar lagfæringar verða framundan, áður en við bjóðum veiðimenn velkomna í júní nk.

 

Tveggja ára nafni minn er á barnsaldri kominn með doktorspróf í VaaaaaaaááááááááÁÁÁÁÁÁÁÁÁÁÁ um! Föðruamma hans er þegar búinn að venja hann við að setja bréfið utan af gjöfunum beint í svartan ruslapoka og svo veit hann að á jólum er minni fyrirstaða , er kemur að nammi.Þetta var sannarlega hans hátíð og mikill gleðigjafi fyrir fullorðna fólkið að fylgjast með svipbrigðum,sem fylgdu váaaaunum.

 

Dundaði mér um jólin við að lesa mér til mikillar ánægju Haustliti Ásgeirs Péturssonar fyrrum sýslumanns í Borgarnesi.Hann var náin vinur Geirs Hallgrímssonar,Bjarna Benediktssonar og Eyjólfs Konrás Jónssonar og áhorfandi og þátttakandi í bernskusporum unga lýðveldsins.Enda ráðherrasonur sjálfur, auk þess sem faðir hans Pétur Magnússon var varaformaður sjálfstæðisflokksins.

 

Mér var við lesturinn tíðhugsað til hversu miklum og hörðum aga þurfti að beita við gerð fjárlaga hér áður fyrr og hve lengi sum þjóðþrifamál voru á athugunarsviði, áður en peningar fengust til framkvæmda.Sjálfur lagði Ásgeir stund á nám við fjárlagagerð í framhaldsnámi í lögum við Berkeleyháskóla í Kaliforníu, 9 árum eftir stofnun lýðveldisins og var ekki vanþörf á.Einn af prófessorum hans setti hljóðan,er Ásgeir sýndi honum uppkast á íslenskum fjárlögum.

 

Í dag eigum við svo mikinn afgang í ríkiskassanum að okkur finnst það bara kúk og piss að fara einhverjar ódýrari leiðir, hvort sem er í sjúkrahúsbyggingum,jarðgöngum eða tvöföldun vega út frá höfuðborginni, að ekki sé talað um einhverja 10 milljarða auka til öryrkja og aldraðra.

Kannski erum við að blindast af velsældinni sem flokkur Ásgeirs hefur innleitt hér á sl. 16 árum.Um þann gullpott verður þráttað og togast á um næstu 145 daga eða svo fram til 12. maí.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband