Nasaþefur af mokstri vinstri manna úr ríkissjóði

Við sem þykjumst eitthvað hafa um stjórnmál að segja og flokkum okkur undir merkjum bláu handarinnar, höfum með samúð og skilningi fylgst með pólitískum fjörbrotum gamla kratafretkarlsins Jóns Baldvins Hannibalssonar. Hann hlýtur að standa felmtri sleginn, er hann virðir fyrir sér mannvalið, sem býður þjóðinni starfskrafta sína á framboðslistum Sjálfstæðisflokksins í komandi kosningum.

Að auki hafa samfylkingarmenn ekkert hlustað á þennan gamla krataforingja sem hefur farið hamförum, í öllum þeim spjallþáttum, sem nenntu að fá hann og röð blaðagreina. Árangurinn af þessum fjörbrotum? Enginn!

Mér er á margan hátt hlýtt til Jóns Baldvins, hann hefur sannarlega verið litríkur og skemmtilegur stjórnmálamaður, sem áreiðanlega var líka einlægur hugsjónamaður og er sjálfsagt enn. Mér finnst bara óþolandi að hann eins og Davíð Oddsson, skuli ekki skynja að þeirra pólitíski ferill er kominn í þátíð og þeir þurfa að leyfa pólitík nútímans að fá að þróast í friði, án þeirrar íhlutunar.

Ég hef löngum á Hrafnaþingi varað við efnahagsöngþveiti, ef Íslendingar taka upp á að leika í rússneskri rúlettu um fjöreggið sitt og kjósa yfir sig vinstri stjórn. Aldrei í Íslandssögunni hefur slík ríkisstjórn skilið annað eftir sig en efnahagsöngþveiti, óðaverðbólgu og fjöldagjaldþrot. Menn hafa verið að berja á mér fyrir fortíðarrugl.

Þurfa menn frekari sannana við, en að líta á tillögur stjórnarandstöðunnar við afgreiðslu fjárlaga, þar sem bótaþegum og þeirra væntanlegu framtíðarkjósendum er lofað auka 9 milljörðum úr ríkissjóði. Allar vilja að bræður og systur okkar sem minna mega sín fái að lifa mannsæmandi lífi innan þeirra marka,sem velferðarkerfið kveður á um. Þeim er enginn greiði gerður með innantómu loforði um gullpott úr ríkissjóði ef frú Ingibjörg, Steingrímur og Addi Kittu Gau fá að setjast að kjötkötlum. Í dag er hér vestra Þakkargjörðardagur og kalkúnum slátrað í milljónatali. Ég sendi þakkir austur yfir haf fyrir ríkisstjórn, sem hefur leitt þjóð sína inn í mestu velsældartíma sem sögar fara af.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég hef löngum á Hrafnaþingi varað við efnahagsöngþveiti, ef Íslendingar taka upp á að leika í rússneskri rúlettu um fjöreggið sitt og kjósa yfir sig vinstri stjórn. Aldrei í Íslandssögunni hefur slík ríkisstjórn skilið annað eftir sig en efnahagsöngþveiti, óðaverðbólgu og fjöldagjaldþrot. Menn hafa verið að berja á mér fyrir fortíðarrugl.

Sæll nágranni. Ég verð að fá að berja aðeins á þér líka.

Það er gaman að hlusta á ykkur aðdáendur ríkisstjórnarinnar tala um efnahagsöngþveiti og fjöldagjaldþrot þegar við búum við ríkisstjórn sem hefur gjörsamlega brugðist í góðærinu sem við hefðum átt að búa við. Og til að því sé til haga haldið var mesta gjaldþrotahrina sögunnar á árunum 98-02. Við sitjum uppi með slíka andlega moldarkofa bæði í ríkisstjórn og í seðlabanka að íslensk þjóð er að verða aðhlátursefni hjá siðmenntaðri ríkjum.

Það sem þessari ríkisstjórn hefur mistekist er það sem Sjálfstæðisflokknum hefur alltaf mistekist þ.e. að sýna aðhald í ríkisrekstri þegar efnahagslífið er í uppsveiflu. Fólk þarf ekki annað en að líta á greiðsluseðla Íbúðalánasjóðs til að sjá árangur þinna manna. Þar eru heildarvextir uppá 10 - 12% (ég nenni ekki að gá).

Ég sendi þakkir austur yfir haf fyrir ríkisstjórn, sem hefur leitt þjóð sína inn í mestu velsældartíma sem sögar fara af.

Nú segi ég eins og nágrannakona okkar á mýrunum sem er nýlega látin sagði stundum við mig;

verði ykkur að vind og skít!

Jóhannes F. Stefánsson (IP-tala skráð) 22.12.2006 kl. 15:37

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband