18.4.2007 | 01:28
Felmtri slegnir Bandaríkjamenn
Hrafnaþing á þriðjudegi frá Key Largo og Fiskislóð 14.Jón Gunnarsson framkvæmdastjóri og Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður hjá okkur í dag til að brjóta mál til mergjar.Fjölmennur landsfundur að baki og áhugavert að skoða hver Sjálfstæðisflokkurinn telur vera næstu skref á framfarabraut eftir 16 ára stjórnarforystu.
Hér vestanhafs sitja menn enn einu sinni felmtri slegnir eftir skotárásina við tækniháskóla Virginíu í gær.Enn einu sinni eru fjöldamorð framin af byssumanni,þar sem saklaust fólk er hreinlega líflátið gersamlega tilefnislaust.
Vafalaust verður langt í það að lögregla og fjölmiðlar setji saman heildræna mynd af þessum ógæfusama námsmanni,sem greinilega missti vitið þennan örlagaríka morgun.Það er mönnum hins vegar ofar skilningi hversu marga þessi maður gat drepið eða sært á svo skömmum tíma, 60 manneskjur.
Ég hef verið að fylgjast með viðtölum við sjónarvotta sem lifðu árásina af og það setur hreinlega að mér kaldan hroll. Það er rétt hægt að ímynda sér martraðirnar sem eftirlifandi eiga eftir að þjást af,kannski alla ævi.
Úti í heimi horfa menn til Ameríku og velta fyrir sér hvernig þetta geti gerst.Aðeins nokkrir daga síðan byssumaður í Michiganfylki drap 2 eða 3 samstarfsmenn eftir að hafa verið vikið úr starfi.
Skýringin er vafalaust að hluta til sú að byssumenningin hér í landi á sér ekki hliðstæðu í heiminum.Hér getur næstum hver sem vill farið í næstu búð framvísað hreinu sakarvottorði og keypt sér byssu.Það er ekki lengra en síðan í fyrradag,að ein af stóru sjónvarpsstöðvunum sýndi frétt frá New Orleans. Þar hefur tíðni morða fyrstu 3 mánuði ársins meira en tvöfaldast frá í fyrra úr 21 í 43.
Viðbrögð íbúana,að fara út í búð og vígbúast.Sýnt var viðtal við byssusala,sem gladdist yfir líflegum viðskiptum en hafði jafnframt miklar áhyggjur af því ástandi sem hefur skapast í borginni hálfu öðru ári eftir að fellibylurinn Katarína beinlínis sökkti henni.
Einnig voru sýnd viðtöl við hárgreiðslukonu og kennslukonu sem komin var á eftirlaun.Þær eiga báðar skambyssur og fara reglulega til að æfa sig.
En Bandaríkjamenn eru einnig aldir upp við ljómann af byssumönnum fortíðarinnar,hvort sem þeir hétu Davy Crockett, Buffalo Bill eða Wyatt Earp,að ekki sé talað um Roy Rodgers eða Gene Audrey.Þeir voru allir mennirnir með hvítu hattana,en andstæðingarnir með svarta.
Við sem búum hér í útjaðri Miamiborgar, þar sem fólk af kúbverskum uppruna ræður öllu horfum daglega á kvöldfréttir sjónvarpsstöðvanna,þar sem morð og skotbardagar eru oftar en ekki uppistaðan í fréttatímanum. En ég bjó líka um þriggja ára skeið í Madison Wisconsin í miðvesturríkjunum,þar sem morð voru álíka mörg og á Íslandi.
Ég fullyrði að hinn almenni Bandaríkjamaður er einkar friðsamur.Leggur mikið á sig í vinnu og að sjá fyrir fjölskyldu sinni og er jafn felmtri sleginn og ég og þú,er svona voðaatburðir gerast. Er líka upp til hópa andvígur stríðinu í Írak og öðrum stríðum,alveg eins og ég og þú.
Heim til Íslandsála. Hef verið að velta fyrir mér landsfundum stóru fylkinganna um helgina og leita að snertiflötum og samleið til stjórnarmyndunar að afloknum kosningum. Ætla ekki að vera með miklar fabuleringar um það,en beina málinu til þeirra Guðlaugs Þórs Þórðarsonar alþingismanns og Jóns Gunnarssonar frambjóðaanda Sjálfstæðisflokksins í Kraganum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook