20.12.2006 | 21:35
Davíð að verða yfirforsætisráðherra ?
Sit hér í Hrafnaþingssumarfríi á Key Largo á Flórída á sjálfan kosningadaginn í meintri vöggu lýðræðisins, hálf felmtri sleginn. Ekki yfir því að innan við helmingur 200 milljóna kjósenda nenni á kjörstað, heldur heiftinni og illviljanum í útvarps og sjónvarpsauglýsingum, sem flokkar og frambjóðendur eyddu um 120 milljörðum íslenskra króna í. Hólí mólí,kosningabarátta á Íslandi verður að hreinu KFUM dæmi í samanburði.
Hef verið hugsi yfir ásökunum um einhverja aðför að Birni Bjarnasyni í prófkjöri okkar sjálfstæðismanna á dögunum. Hlýt að vera verr upplýstur en ég hef haldið, eða bara utangátta. Ég bara sá ekki þá aðför, sem kallaði á einhverja sérstaka stuðningsyfirlýsingu Geirs Haarde. Björn Bjarnason hefur í ráðherrastörfum mælt fyrir ýmsum aðgerðum í öryggismálum þjóðarinnar,sem í eðli sínu eru umdeildar, auk þess að vera af mörgum talinn síðasti móhíkani kaldastríðsáranna.
Björn lagði þessi störf undir dóm sjálfstæðismanna í Reykjavík og fékk hreina og klára traustsyfirlýsingu. Það að myndarlegur hópur sjálfstæðismanna kallaði á Guðlaug Þór Þórðarson til frekari trúnaðarstarfa verður seint talin innanflokksaðför að hæstvirtum dómsmálaráðherra, eins og hann í einhverju ólundarkasti er að reyna að selja okkur sjálfstæðismönnum. Ég er persónulega ekki frá því að hann hefði átt að láta hér við sitja eftir 16 ára þingmennsku eins og hann segist hafa hugleitt. Ég hef sagt það áður að langsetnir ráðherrar á sjötugsaldri eiga alls enga forgangskröfu á áframhaldandi ráðherraembætti. Kannski á það fyrir Birni að liggja að ljúka ferlinum eins og frændi hans, í þingforsetastóli. Hann myndi sóma sér þar vel eins og hann hefur gert í öllum störfum fyrir fólkið, sem býr á eyjunni bláu.
Flestir vita að ég hef verið einn dyggasti stuðningsmaður Davíðs Oddssonar gegnum árin og honum á að reisa styttur fyrir framsýni og djörfung í að losa íslensku þjóðina úr viðjum hafta og óðaverðbólgu og búa henni mestu velsæld Íslandssögunnar. Frelsisvæðing fjármála og atvinnulífs á sér vart hliðstæðu, það svo að Davíð sjálfur virðist á stundum óttast þetta nýfengna frelsi. Látum það liggja á milli hluta. Það sem veldur mér hugarangri,er að þessi ágæti maður virðist hafa gleymt því að hann er hættur stjórnmálaafskiptum. Mér sýnist hann vera þungt haldinn af fráhvarfseinkennum eftir að hafa verið óskasveinn þjóðarinnar í aldarfjórðung. Hann er að búa sér til einhvers konar yfirforsætisráðherraembætti og notar stýrivaxtauppstönd til að gagnrýna eftirmann sinn til hægri og vinstri. Gersamlega óþolandi. Síðast í morgun á einhverjum fundi túlka fjölmiðlar orð hans sem hótanir um vaxtahækkanir. Svo skammast hann út í eitt út í matarskattalækkanir og annað, sem ríkisstjórn Geirs Haarde hefur á stefnuskrá.
Davíð Oddsson á að hafa vit á að hætta þessum uppistöndum. Seðlabankinn getur hæglega komið sínu mati á efnahagsmálum þjóðarinnar á framfæri öðru vísi en með reglulegum beinum útsendingum formanns bankastjórnarinnar og gróflegri íhlutun hans í landsstjórnina.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:40 | Facebook
Athugasemdir
Sæll vertu Ingvi Hrafn.
Ég var að sjá þennan pistil frá þér og er algjörlega ósammála þér um svokölluð "uppistönd" Davíðs.
Þetta er óþarfa viðkvæmni. Hvers konar viðhorf eru það, að menn sem hætta sem ráðherrar, þingmenn eða hvað það heitir eigi að verða skoðana- og mállausir við sín starfslok.
Er eitthvað vont fyrir "eftirtakendur" svona almennt, að heyra sjónarmið reyndra og góðra manna. Hvaða endemis vitleysa er það að kalla slíkt að þeir "fyrrverandi" vilji endilega verða "yfirforsætisráðherrar, yfirutanríkisráðherrar" eða eitthvað annað. Eftirtakendurnir eru ekki svo lítilla sanda og lítilla sæva að þeir skilji orð og skoðanir forvera sinna sem "skítkast" í sinn garð. Góð ráð eiga alltaf að vera vel þegin, en ekki fer á milli mála að "eftirtakendur" ráða því hvort þeim ráðleggingum er "hlýtt í blindni" eða þeir sjálfir hafi aðra stefnu og aðra sýn á málin og þá fylgja þeir henni að sjálfsögðu fram. Það er alltof lítið gert úr "eftirtakendum" í svona starfi ef þeir telji almennar skoðanir forvera sinna vera til óþurftar og settar fram sér til niðurlægingar.
Bestu jólakveðjur.
GRI
Guðmundur R. Ingvason (IP-tala skráð) 22.12.2006 kl. 11:53
Sæll Ingvi Hrafn og gleðilegt ár.
Já ég er sammála með að Davíð eigi ekki að vera með pólitískar yfirlýsingar úr Seðlabanka, hann er að minnka sjálfan sig með skeytum á arftaka sinn. Auðvitað ríma skattalækkanir ekki hagfræðilega við þensluástand og þá verðbólgumarkmið Seðlabankans. En það er Geir sem er í pólitík í aðdraganda kosninga í efnahagsmálum, sem geta orðið afdrifaríkar. Steingrímur J. Sigfússon hefur afdráttarlausa stefnu í efnahagsmálum, sem kom fram í útvarpi nú um áramótin. Í stuttu máli vill hann :Fella gengið til að vinna gegn viðskiptahallanum og skuldasöfnun Íslendinga. Hætta stóriðjuframkvæmdum en sinna umhverfismálum. Skapa frið og jafnvægi á vinnumarkaðnum. Ég hef ekki enn skilið hvort Ingibjörg í Samfylkingunni hefur svo svipuð sjónarmið þannig að þau geti myndað stjórn saman. Ég vona að Geir taki þessi stefnumál Steingríms til umfjöllunar. Skýri fyrir þjóðinni hvaða áhrif dugleg gengisfelling hefur á skuldastöðu heimilanna og allra Íslendinga, hvað hann ætlar að gera þegar verkalýðsfélögin vilja leiðréttingar osfrv. Hvar var hann Steingrímur eiginlega 1970-1990 ? .Kveðja Halldór Jónsson verkfr.
Halldór Jónsson (IP-tala skráð) 3.1.2007 kl. 19:18