28.4.2007 | 01:54
Framsóknarharakiri?
Hrafnaþing 27. Apríl 2007.
Sæl á föstudegi frá sólarströnd Key Largo,síðasta útsending Hrafnaþings héðan í bili,verð kominn á Fiskislóð 14 með allt mitt hafurtask eftir helgi. Sigurður G Tómasson og Hallur Hallsson í myndveri til að skoða fréttir vikunnar og önnur mál. Hallur skrifar grein í moggann í dag, ómyrkur í máli að venju. Spyrjum hann hvað Alcanleiðtoginn eigi við með því að segja álverskosningar í Hafnarfirði ekki bindandi.
Ég er allt í einu að byrja að fatta fylgishrun framsóknar í frjálsu falli.Korteri fyrir kosningar bindast formaður og ráðherrar flokksins tryggðarböndum um að ná fram hámarks klúðri í ímyndarmálum.Maður horfir úr fjarlægð eiginlega felmtri sleginn. Siv uppskrúfuð, skjálfandi af heift strunsar framhjá Kristjáni Má Unnarssyni. Jón Sigurðsson formaðurinn fattlausi eins og strákur, gripinn með höndina í kökuboxi og svo hæstvirtur umhverfisráðherra að reyna á torgi að selja ,að menn hafi ekki vitað um útlenska tengdadóttur með sama heimilsfang og ráðherrann og umsókn um ríkisborgararétt. Hvað er eiginlega að gerast.
Gömlum fyrrum gagnslitlum framsóknarþingmanni er vísað úr bitlingastóli Landsvirkjunarformanns þrátt fyrir að hann lýsi yfir einlægri löngun til að þjóna þjóðinni áfram. Í glóðvolgt framsóknarsætið sest einn af erfðaprinsunum,Páll Magnússon.Skýringin formannsins16 dögum fyrir kosningar,ja þetta er nú svona í pólitík að maður kemur í manns stað.
Þið verðið að fyrirgefa mér þótt ég fari í alvöru að mæna til Samfylkingarinnar,sem dansfélaga í ríkisstjórn að loknum kosningum. Það verður áhugavert að heyra skoðun Halls og Sigurðar á þessu máli.
Talandi um að vera felmtri slegin.Sáuð þið fréttina frá Páfagarði yfirverndara barnaníðinga um að rannsóknir sýndu að börn sem dæju óskírð þyrftu ekki endilega að landa í forgarði vítis eins og kaþólikkar hefðu áður haldið fram.
Í hvaða heimi búa þessir hugsjúku úrkynjuðu karlhlunkar,sem mynda skjaldborg um presta,sem áratugum saman stunda þá iðju að þukla á eða nauðga kórdrengjum eða öðrum piltum,sem heittrúaðar mæður trúa þeim fyrir.
Ég veit ekki hvað það segir,að Benedikt páfi hafi verið formaður nefndarinnar,sem komast þessari trúarfræðilegu stórfrétt.Ég segi eins og krataþingmaðurinn forðum er honum ofbauð vælið í kjósendum á hafísárunum, maður gæti göbbað.
Hér vestra þrengir æ meira að Bush forseta. Öldungadeildin hefur nú samþykkt ályktun um tímasetningu heimkvaðningar hersins frá Írak.Bush mun að sjálfsögðu beita neitunarvaldi og ljóst að ekki er tveggja þriðju meirihluti í þinginu til að hnekkja því.En kannanir sýna að stuðningur almennings við forsetann minnkað stöðugt og harðir stuðningsmenn hans,sem ég þekki fórna bara höndum.Hann gerir sér greinilega vel fyrir þessu sjálfur og einhvern veginn eins og allur kraftur sé úr honum.Hann kemur æ oftar fyrir eins og hálf bugaður og sannfæringin,sem hefur fylgt réttlætingu hans á stríðinu hálf innantóm.
Ástandið minnir mig æ meira á námsárin mín í Madison Wisconsin 1967-70,er stúdentar landsins gerðu uppreisn gegn Vietnam stríðinu og þjóðvarðliðar beittu táragasi og jafnvel skotvopnum gegn jafnöldrum sínum.Enn minnast menn með hryllingi þess er stúdentar við fylkisháskólann í Kent féllu í valin fyrir byssukúlum yfirvalda.
Að vísu er munur á ástandinu nú og þá, stúdentar láta sig þetta stríð litlu varða, enda ekki lengur skyldaðir til herþjónustu. Eins og var fyrir 40 árum.Þá flúðu nokkrir af skólabræðrum mínum til Kanada og Svíþjóðar og ég veit að tveir þeirra sem fóru norður yfir landamærin hafa aldrei komið heim aftur þótt löngu sé búið að veita sakaruppgjöf.
Er búið að birta svarta listann yfir þá veitingastaði,sem stálu skattinum af gestum sínum?
Segi þetta vegna yfirlýsingar samtaka ferðaþjónustuaðila,þar sem það er harmað.Þetta er þeim mun illskiljanlegra,að lækkun virðisaukaskatts á matsölu og gistingu er búið að vera helsta baráttumál ferðamannaiðnaðarins í áratugi.Ekkert að gera annað en birta listann.Þá geta allavega Íslendingar sniðgengið skúrkana.
Óska Vilhjálmi borgarstjóra til hamingju með nýju lóðaúthlutunarreglurnar.Ég held að hann sé langt komin með að efna öll kosningalorforðin sem gefin voru fyrir ári.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook