23.3.2007 | 01:38
Hrafnaþingshrakningar í USA
Heil og sæl frá Key Largo á Flórída, búið að setja upp og tengja studio ÍNN og allar stillingar eiga vera í lagi gegnum óviðjafnnalegt Ichat kerfi Apple. Hrafninn á 24 tommu I mac tölvu sem vinir Ínn hjá apple umboðinu góðfúslega lána okkur meðan ég er þeim slóðum sem golfstraumurinn rennur fram hjá 25 gráðu heitur og lendir vestur af Íslandi eftir 40 daga.15 til 20 gráðum kaldari,en nákvæmlega nægilega hlýr til að viðhalda gnægtarbrunni íslensku þjóðarinnar,fiskunum sem þar synda og gera eyjuna bláu byggilega.
Ofurhuginn Ólafur Magnússon framkvæmdastjóri Mjólku hér á eftir.Hann og nokkir bændur hafa sýnt af sér fádæma hugrekki fyrir hönd íslenskra neytenda að voga sér að fara í samkeppni við eitt harðasta einokunarfyrirtæki islands í dag Mjólkursamsöluna. Margir minnast hetjulegrar baráttu hjónanna Þórðar Ásgeirssonar fiskistofustjóra og Guðríðar Thorarensen,sem stofnuðu Baulu og buðu upp á bestu jógúrt Íslandsögunnar í trássi við einokunina.Þau sómahjón enduðu í gjaldþroti meðal annars vegna þess að sómamaðurinn Jóhannes í Bónus neyddist undir ofurþrýstingi að skera hillupláss Baulu niður í lítið og ekki neitt til að fá afslátt hjá risanum.
Mér er ekki illa við Mjólkursamsöluna,sem nú siglir undir forystu nýs forstjóra Guðbrands Sigurðssonar.Þeir framleiða sannarlega heimsgæða vörur og vilja sínum 700 bændum aðeins það besta sem og neytendum eins og fram kemur í hátíðaryfirlýsingu forstjórans í dag.
En þeir eru tímaskekkja nútíma viðskiptahátta frelsis, samkeppni og vöruþróunar og vonandi eigum við svo öflugar eftirlitsstofnanir að Bauluhneykslið endurtaki sig ekki.Og vonandi eru íslenskir neytendur svo skynsamir að þeir skynja að kaup á vörum Mjólku tryggir þeim kannski meiri fjölbreyttni og vöruvöndun en þá órar fyrir .
Meira um það á eftir.
Vil byrja á því að þakka frábærri áhöfn Bostonflugs Icelandair sl. Föstudag.Flugstjórinn Hafsteinn Pálsson og frú Björg Bjarnason fyrsta freyja og allir aðrir í áhöfninni voru lýsandi dæmi um hvílíku afburða starfsfólki þetta fyrirtæki hefur á að skipa.
Við vorum komin í aðflug að Loganflugvelli í Boston eftir óvenju langt 6 klukkustunda og 10 mínútna flug á móti 250 km háloftavindum.Síðasti vetrarstormurinn var að loka öllum flugvöllum á austurströnd Bandaríkjanna og með þeim afleiðingum að um 3500 flugum var aflýst áður en dagurinn var liðinn.
Þegar við héldum að lendingaraðflug væri að hefjast kom Hafsteinn í hátalarann og tilkynnti okkur að Bostonflugvöllur væri lokaður vegna þess að flugbrautirnar væru orðnar eins og skautasvell um leið og sól gekk til viðar.Við þyrftum að landa í Bangor í Maine rétt við kandadísku landamærin,taka eldsneyti og bíða átektar.
Til að gera langa sögu stutta enduðu 160 farþegar og áhöfn í sólarhringsdvöl í þessari heimabyggð rithöfundarins Stephens King þar til klukkan 6 á laugardagskvöldi.Fyrir á flugvellinum var Boeing 747 þota frá Lufthansa og 2 breiðþotur frá Air Lingus,fullar af Írum sem ætluðu á St Patricksdagshátíðahöld í Boston á laugardegi.Samtals um 1200 manns.Flugstöðin er dæmigerð innanlandsstöð fyrir amerískan smábæ. Þarf ég að segja meira.Örþreytt folk, ófrískar konur og smábörn,sem nutu ómetanlegrar aðhlynningar Rauða Krossins í Bangor sem komu með teppi og bedda lágu eins og hráviði um allt . Tvær kaffistofur flughafnarinnar kölluðu allt sitt starfsfólk út á neyðarvaktir og náðu á hreint ótrúlegan hátt að fóðra þennan fjölda.
Við vorum svo heppin að njóta hugkvæmni þriggja stráka sem voru meðal farþega.Einn þeirra hringdi í bróður sinn á Íslandi og bað hann að leita á netinu að lausum hótelherbergjum í Bangor.Skemmst frá því að segja að öll hotel voru troðfull nema Best Western ,þar fundum við síðustu herbergin í heimi og gátum um þrjúleytið lagt þreytt höfuð á kodda.Þúsund manns sváfu á gólfi flugstöðvarinnar.Úti gnauðaði vindur og vart sá út úr augum.Alveg eins og í skelfingarsögu eftir meistara King.
Daginn eftir er Hafsteinn og Björg komu með sitt folk eftir lögboðna áhafnarhvíld fórum við í biðröð til að fá afísun á vængjum og stéli,og biðum í 55 mínútur meðan Luftahansajúmbóin var kláruð sem segir sitt um klakabyrðin.Við lentum Í Boston klukkan 7, 24 tímum á eftir áætlun.Við fréttum það seinna að áhöfnin hefði ekið um úthverfi Bangor fram undir morgun í leit að gististað.Fyrst fann Hafsteinn flugstjóri flugfreyjunum herbergi uns flugmennirnir þrír gátu lagt höfuð á kodda á afdala Stephen King móteli. Hafsteinn sagðist haft á tilfinningunni að eigendur hefðu ekki þvegið þvott lengi lengi.
Gaman að segja frá því í framhjáhlaupi,að Flugumsjón Icelandair á Íslandi taldi ástandið í yfirfullri flugstöð Bangor slíkt að þangað væri engum manni bjóðandi og taldi skynsamlegast að vélinni yrði snúið aftur heim til Íslands,þar sem flugtími nú í meðvindi yrði aðeins þrjár og hálf klukkustund og nægilegt hótelrymi fyrir alla.
En þegar Hafsteinn flugstjóri kynnti þetta fyrir farþegum fóru nokkrir þeirra hreinlega úr límingunum og skapaðist hreint uppreisnarástand. Verstir voru Arabi,Þjóðverji og Indverji og hvílíkur kokteill kúkalabba.Langflestum fannst þessi kostur skynsamlegur þótt tilhugsunin ein væri heldur fráhrindandi.En þarna máttu fáir við margnum og eftir ítrekaðar tilraunir Hafsteins og Bjargar fyrstu freyju, til að tala um fyrir þremenningunum varð Hafsteinn að lýsa sig sigraðan og leggja TF Valdísi við festar flughafnarinnar.
Ég vil sérstaklega hrósa Hafsteini Pálssyni,sem látlaust miðlaði upplýsingum til okkar farþeganna á einkar skýran og traustvekjandi hátt þannig að við vissum allan tímann, stöðuna og valkosti sem í boði voru.Ég myndi ráðleggja stjórnendum Icelandair að fara nákvæmlega yfir ferlið þetta kvöld og nótt til að búa til vinnureglur fyrir áhafnir um viðbrögð þá sjaldan að vetur konungur tekur svo rækilega í taumana.Menn minnast þess ekki að svo mörgum flugum hafi áður verið aflýst á einum sólarhring. Um hálf milljón manna lentu á veðurvergangi fjórum dögum fyrir vorjafndægur. Mér sýnist af veðurfregnum að heiman að leifar þessa óveðurs séu nú að lemja Íslandsstrendur.
Ég ætla ekki að eyða orðum að enn einu framboði lýðveldisins Íslands,sem ekkert nýtt hefur upp á að bjóða annað en einshvers konar smyrsl á laskað sjálfsálit forvígismanna.Ég ætla að skoða málefnaskrá þeirra betur og ræða þetta á morgun með Sigurði G Tómassyni og Jóhanni Haukssyni burðásum Útvarps Sögu FM 994.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook