15.3.2007 | 19:50
Á að troða púðri í rakettur við opin arineld?
Góða kvöldið og velkomin á Hrafnaþing fimmtudaginn,sem þingfundum á að ljúka og kosningabaráttan næstu 58 daga fer í algleyming.Við heyrðum sýnishorn í eldhúsdagaumræðum frá alþingi í gærkvöldi, þar sem loforðaðflóðið og tilheyrandi lýðskrum fossaði yfir þá sem kveiktu á gömlu gufunni. 150 þúsunda króna skattleysismörk hundruðir sjúkrarúma og kvótinn gerður upptækur. Guðmundur Hallvarðsson er að ljúka 16 ára farsælum þingmennskuferli,hann verður hér á eftir til að tala um pólitík,samgöngumál,sjómennsku og málefni aldraða,en hann hefur um langt árabil verið í forystusveit Hrafnistumanna.
Ég kunni í gærkvöldi sannast sagna best við sannleikann,sem forsætisráðherra boðaði í ræðustóli,að það væri hægt að framlengja framfaraskeiðið um langt árabil,en það væri líka hægt að eyðileggja það og keyra inn stöðun og versnandi lífskjör. Sannast sagna hláleg tilhugsun með tilliti til þess að sennilega hefur staða ríkissjóðs aldrei verið jafn sterki frá stofnun lýðveldsins fyrir 63 árum.Handbært fé ríkissjóðs í janúar nam hvorki meira né minna en 19. 6 milljörðum króna. 12 milljörðum meira en á sama tíma í fyrra, ef ég man tölurnar rétt.Tekjuafgangur ríkissjóðs sl. 2 ár samtals 120 milljarðar króna.
Vaxtagjöld ríkisins eru orðin hverfandi, frá því í upphafi hagsældartímbilsins 1991, að þau námu nærri þriðju hverri krónu af vergri þjóðarframleiðslu. Ég er ekki viss um að fólk skilji þetta almennilega og að Árni Mathisen fjármálaráðherra hafi verk að vinna að fara hringinn í kringum landið og skýra stöðuna út fyrir fólki á einfaldan og vafningslausan hátt.
Honum á ekki að verða skotaskuld að leysa slíkt verkefni af hendi með sóma.En það er ekki bara hann,ráðherrar og þingmenn Sjálfstæðisflokksins þurfa að skýra málin fyrir háttvirtum kjósendum.Það þurfa allir,sem skilja og njóta ávaxta efnahagsbyltingar síðustu 16 ára að gera það sem í þeirra valdi stendur til að forða þjóðinni frá enn einu hamfaratímabili vinstri afla.
Það verður áhugavert að fylgjast með hvernig ungur og ferskur framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins Andri Óttarsson tekast á við verkefnið að undirbúa landsfund og í framhaldi að fylgja eftir samþykktum fundarins í baráttunni síðustu vikurnar fyrir kosningar.
Það þarf kjark til að fara í fótspor Kjartans Gunnarssonar og hella sér beint út í eldskírn.
Sjálfstæðisflokkurinn er svo undarlegt sem það er í varnarbaráttu,í varnarbaráttu fyrir að hafa leitt þjóðina inn í mestu velferðartíma allra þegna.Fólk hefur það svo gott að það leyfir sér að leika með elda,að setja púður í rekettur við opin arineld.
27.7% kjósenda segjast ætla að kjósa vinstri græna sem boða eins og ég kalla það efnahagslega kjarnorkuvá komist þeir nokkurs staðar til áhrifa. Fólk er greinilega tilbúið að fækka bílunum á hlaðinu hjá sér, fækka utanlandsferðum,taka á sig hærri skatta og hlusta á ískrið í bremsunum, er velsældarhjólið hægir snúninginn.
Það er alveg rétt, bilið hefur aukist milli ríkra og henna. Jafet Ólafsson sagði á Hrafnaþingi í fyrradag, að líklega væru um 150 einstaklingar milljarðamæringar í reiðufé og um 2000 manns,sem ættu 100 milljónir eða meira. 1996 taldi hann að 150 einstaklingar ættu yfir 100 milljónir.En það er ekki bara á Íslandi,sem kjaramunur hefur aukist,sama sagan er meira og minna um allan heim,Bandaríkjunum, Bretlandi, Þýskalandi, Kína og Indlandi.Ástæðan er hagvöxtur um allan heim, þar sem kínverska efnahagslífið verður æ stærri örlagavaldur.
En þótt moldríkum hafi fjölgað mjög hefur allur almenningur fagnað auknum kaupmætti á hverju ári og stjórnvöld hafa veitt milljörðum til bættra kjara til handa þeim sem minna mega sín.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook