Milljónir tonna af ís hafa ruðst niður Langá

 

Ég hef búið á Langárbökkum í 33 ár og séð hana í ýmsum útgáfum. Vatnslausa niður í harða grjót,súkkulaðibrúna í foráttuflóði og allt þar í milli.Sjaldan eða aldrei hef ég séð önnur eins ummerki eftir ísruðing,er hún fyrir einhverjum dögum hefur sprengt af sér klakabrynju kuldakaflans.Það er greinilegt að miljónir tonna af ís hafa farið hamförum frá Koteyrarbroti( veiðistaður 79) og endað annað hvort tugi metra upp á landi eða niður í Sjávarfossi.

 

Til dæmis er 10 metra hár og jafnbreiður klakaveggur frá efri Hvítsstaðahyl, (nr 40) upp beygjuna upp undir klapparhornið efst í Byrgislaut. Án rennur nú nær öllu um vesturræsið í Glanna og ca 20 metra skarð er í hólman rétt ofan við Túnsstreng ( nr 26). Komst ekki niður að Glanna til að skoða eyrasvæðið sökum þess að klakahröngl er ca 5 metra þykkt ofan á veginum.

 

Þegar maður stendur andspænis svona  náttúrhamförum, fallast  manni hálfpart hendur og maður ímyndar sér að tjónið á  lífríkinu hljóti að vera skelfilegt.En svo þegar allur þessi ís hefur bráðnað og flotið á haf út sýna rannsóknir fiskifræðinga jafnan að áin er bakkafull af seiðum af öllum árgöngum,sem einhvern veginn forða sér undan jökunum, er áin lyftir þeim og kastar niður fossa og flúðir.

 

Ég vildi sannarlega hafa upplifað þessar hamfarir nú eins og ég hef oft sinnis gert áður, heyrt dynkina, er risastórir ísjakar skella utan í klettaveggina. Vaknaði fyrir mörgum árum við slíkan hávaða og hélt að himinn og jörð væru að farast.Lá stjarfur í rúminu smástund áður en ég rauk fram úr til að kanna hvað væri á ferðinni og sá þá tuga tonna jaka kastst upp á klettabrúnina Hvítsstaðamegin við Stangarhyl.Sú  brún er líklega 5-6 mannhæðir.

 

Ég sé hins vegar fyrir mér að við Langárbændum þurfum verk að vinna við að laga veiðivegi og árbakka,sem hafa rifnað og ganga úr skugga um að gjöfulir hyljir hafi ekki fyllst af möl og þá hreinsa upp úr þeim ef svo hefur farið.

 

Þegar við fórum ofan að síðdegis fengum við í heimsókn stóran hóp af akfeitum snjótitlingum,sem hámuði í sig kræsingar úr Bónus,sem við lögðum út fyrir þá og svo komu tveir Hrafnar að sækja nokkrar brauðsneiðar sem ég hafði kastað á þeirra hefðbundna lendingarstað.Þeir krunkuðu í þakklætisskyni  og flugu vestur yfir ánna þar sem þeir settust að snæðingi.Mér varð allt í einu hugsað til þess þar sem ég stóð þarna  í ægifegurð Mýranna í norðan andvara og glampandi febrúarsól,að það eru kannski ekki nema rétt 70 dagar í fyrstu farfuglana vini okkar og innan við 100 dagar í kosningar. Hólí mólí.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband