28.1.2007 | 21:07
Ertu með sjónvarpsþátt í þér fyrir ÍNN?
Eftir dagstöf vegna smá tollafgreiðslusnurðu, byrjar uppsetning útsendingarstúdíós ÍNN klukkan 9 í fyrramálið.Væntanlega verður það fullbúið fyrir vikulok með 4 Sony vélum og nýjustu framleiðslutækni sem völ er á.Alvöruútsendingu ætlum við samt ekki að byrja á fyrr en hver einasti hlutur verður kominn á sinn stað og búið að stilla allt sem stilla þarf.Gæði útsendingar ÍNN eiga að verða mikil.
Rétt að ítreka að ÍNN og Hrafnaþing verða síður en svo eingöngu vefsjónvarp eins og við lögðum upp með í fyrstu. Í framhaldi hafa okkur opnast möguleikar fyrir tilstilli Mentis,að fara inn á Breiðvarpið og Adsl sjónvarpskerfi Símans. Og nú hefur jafnvel opnast möguleiki á enn meiri dreifingu. Það lítur sem sé út fyrir að ÍNN og okkar þættir allir verði aðgengilegir flestum sjónvarpsnotendum um landið vítt og breitt.
Væntanlega byrjum við dagskrárgerðina milli klukkan 16 og 18 með hefðbundnu Hrafnaþingi með einræðu og síðan spjalli við áhugavert fólk á öllum sviðum íslensks þjóðlífs, þótt pólitíkin verði nokkuð áberandi. Í framhaldi á seinni tímanum er á teikniborði hjá okkur frétta og viðskiptatengdur þáttur í samstarfi við annan öflugan fjölmiðil ef um semst.Þessi þáttur færi síðan í endursýningu milli klukkan 18 og 20 og svo aftur á miðnætti og milli klukkan 8 og 10 morguninn eftir.
Þegar okkur svo vex ásmegin,bætum við klukkutíma eða hálftíma framan.Allt verður þetta gert af skynsemi og innan fjárhagsramma. Ég og Ingvi Örn framkvæmdastjóri ÍNN erum hins vegar sannfærðir um að það er fullt af fólki út í þjóðfélaginu,sem er með hugmyndir að sjónvarpsefni,sem ekki hefur hlotið hljómgrunn hjá hefðbundnu stöðvunum,sem eru bundnar við ákveðinn dagskrárramma.Þannig lá alveg fyrir að Hrafnaþing ætti ekki heima innan dagskrárstefnu Stöðvar 2, er NFS leið undir lok.
Við ætlum að opna ÍNN rásina fyrir innlendu sjónvarpsefni og getum fyrir rétt efni boðið útsendingu á besta tíma milli 8 og 10 á kvöldin.Við bjóðum upp á þáttaframleiðslu og útsendingu gegn ákveðinni greiðslu. Aðilar geta síðan sjálfir fundið sér kostun og selt auglýsingar inn í sína dagskrá.Þannig geta félagasamtök,stjórnmálaflokkar,fyrirtæki ,stofnanir og jafnvel einstaklingar komið til ÍNN,pantað þáttaframleiðslu og útsendingu að þörfum.Auðvitað innan eðlilegra velsæmismarka.ÍNN verður sem sagt eins konar regnhlíf yfir mörg framleiðslufyrirtæki og ekki bundið af hlutleysis- eða jafnræðiskvöðum.Þannig gæti Alcan framleitt hjá okkur og sent út vikulega þætti fram að atkvæðagreiðslu til að kynna sín sjónarmið.Andstæðingar stækkunar gætu þá ef þeir vildu keypt þætti til að vera á öndverðum meiði.
Hugmyndirnar þróast hins vegar hratt hjá okkur og við munum er líður á vikuna kynna nánar möguleika sem opnast í dagskrárgerð með tilkomu ÍNN.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 29.1.2007 kl. 10:33 | Facebook
Athugasemdir
Hver er slóðin inn á þetta vefsjónvarp hjá þér Ingvi minn? Ég er orðinn frekar spenntur fyrir þessu hjá þér. Það er gaman að fylgjast með þér, þó að ég sé nú ekki alltaf sammála þér í hinu og þessu
Rúnar Már Magnússon, 29.1.2007 kl. 08:42