Eiga gjöf að gjalda


 

Eftirminnilegast gjöf sem ég hef fengið á ævi minni fyrir utan syni mína úr móðurkviði,var í febrúarlok 1958 á Núpi í Dýrafirði.Arngrímur heitinn Jónsson yfirkennari kom og færði mér pakka,sem hafði komið með bíl frá Ísafirði.Ég átti alls ekki von á neinu,nýkominn aftur vestur úr jólafríi. Kannaðist alls ekki við rithöndina.Flýtti mér út á vist til að skoða innihaldið.

Ég var búinn að reykja í heilt ár,byrjaði því miður 14 ára.Það var ekki mikið tóbak til á yfirráðasvæði séra Eiríks og við reykingaþrælarnir vanir að sníkja hver af öðrum og sjúga stubba þar til brann á vörum, eða drekka sósuna úr súrum pípum.

 

Ég hefði viljað gefa mikið fyrir að sjá svipinn á sjálfum mér og herbergisfélögunum,Didda Björns,Steina Lár og Stjána Þórarins, er upp út pakkanum kom eitt karton af Camel og 10 pakkar af Half and Half píputóbaki og slatti af kóngabrjóstsykri. Enginn miði, ekkert kort,ekkert um sendandann. Aðeins stórum stöfum Ingvi Hrafn Jónsson, héraðsskólanum Núpi í Dýrafirði.Þið getið ímyndað ykkur hvílíkur konungur í ríki mínu ég varð það sem eftir lifði vetrar. Ég sver að ég seldi dýrum dómi í pípur og klippti sígarettur í tvennt,en gaf mínum nánustu vinum. Það voru margir sem vildi komast í þann innsta hring.Ég lá hins vegar andvaka í heilan mánuð niðursokkin í heilabrot um þennan dularfulla velgjörðarmann.Ég held svo að það hafi verið í Páskasímtali frá mömmu,að hún skilaði til mín kveðju frá hálfgerðri fósturmóður minni Erlu Egilsson læknisfrú á Vífilstöðum og  spurði hvort ég hefði fengið brjóstsykurinn frá Skúla syni hennar. Ég veit ekki hversu oft á lífsleiðinni ég hef knúsað þennan vin minn og þakkað fyrir pakkan um árið. Þarna var hann orðinn togarasjómaður  og skip hans Þorkell Máni þurfti inn til Ísafjarðar einhverra erinda og þá datt honum í hug að sendi vini sínum pakka. Enda hafði ég elt hann á Núp, á sama hátt og ég elti hann til sjós, seinna þetta sumar. Hann var svona hálfgerð stórabróðurímynd mín,sem kenndi mér á bíl, er ég var 12 ára.

 

 Því nefni ég þennan fóstbróður minn Skúla Ólafsson, Geirssonar aðstoðaryfirlæknis á Vífilstöðum,að hann lést af völdum skyndilegs hjartaáfalls á laugardagskvöld aðeins 66 ára að aldri.Þar með eru fallnir í valinn á örfáum árum tveir af mínum kærustu bernskuvinum, en bróðir Skúla, Þórarinn yfirlæknir á gjörgæsludeild Landssítalans, lést fyrir örfáum árum öllum harmdauði. Eftir lifir systirin Elísabet Erla, læknisfrú í Kaupmannahöfn.Þessi fjölskylda öll var sem mín önnur,því  ég tók ástfóstri við frú Erlu eiginlega frá fyrstu minningu og mín beið alltaf uppbúið rúm,hvenær sem ég vildi koma upp að Vífilsstöðum,sem í kringum 1949 var langt langt upp í sveit.Á sama hátt og faðir minn prófessor Jón Sigtryggsson og Ólafur Geirsson voru veiðifélagar í Laxá í Aðaldal, voru þeir bræður veiðifélagar mínir í áratugi fyrir norðan og ég trega þá sem mína eigin bræður.

 

Ég velti því fyrir mér, nú þegar Guðni Ágústsson er búinn að rúlla Hjálmari Árnasyni upp, hví í ósköpunum hann tók ekki við flokksforystunni í stað þess að taka mark á grunnhyggju Halldórs Ásgrímssonar,sem galt dýru verði hrokafulla frekju sína að krefja Sjálfstæðisflokkinn um forsætisráðherrastólinn.Framsóknarmenn höfðu valið Guðna,sem sinn aðstoðarleiðtoga og Halldór  Ásgrímsson hafði ekkert umboð til að grípa þar frammí.Líklegast mun dómagreindarskortur Halldórs fara langleiðina með að eyða flokknum, eða dæma hann til margra ára áhrifaleysis í íslenskum stjórnmálum.Ég óska Hjálmari velfarnaðar og góðrar heilsu,hann var svo heppinn, er hann fékk hjartáfall í fyrra að fá það upp spítala ef ég man rétt.Hjálmar er góður drengur,sem hefur borið með sér þægilegan , hressan og jafnvel glaðværan blæ í stjórnmálaamstrið.Hans bíða vafalaust mikilvæg verkefni á heimaslóðum.

 

Það er eiginlega makalaust,að í hvert skipti sem Ingibjörg Sólrún heldur ræður, hvort sem það er í Borgarnesi eða Keflavík, hrynur fylgið. Að vísu er vafasamt að taka of mikið mark á fréttablaðskönnun helgarinnar vegna lágs svarhlutfalls,en hún er alla vega vísbending.Ég er ekki frá því að Össur sé á fjósbita.

 

Fyrstu tækin í útsendingar og framleiðslustúdíó ÍNN koma til landsins á þriðjudag og væntanlega byrjum við tilraunaútsendingar fyrir eða eftir næstu helgi.Þakka fyrir þann góða anda sem við feðgarnar finnum og mikinn áhuga. Það á svo eftir að koma í ljós hvernig okkur gengur að afla tekna í samkeppni við Auglýsingasölu- og kostunardeild íslenska ríkisins.Við ætlum að bjóða Sigga Kára og kannski hæstvirtum menntamálaráðherra og öðrum fulltrúum einkaframtaksins á alþingi í heimsókn vestur á Fiskislóð 14 aðra hæð og leita góðra ráða.Þau hafa varla mikið að gera meðan stjórnarandstaðan heldur alþingi í gíslingu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur H. Bragason

Hlakka mikið til að fá ykkur í loftið á nýrri stöð. Bráðnauðsynlegt að fá í loftið fólk með skoðanir og er ekki hrætt við að tjá þær

Guðmundur H. Bragason, 21.1.2007 kl. 23:40

2 identicon

 

....hinn rússneski eigandi Chelsea náði til sín nokkrum ríkisfyrirtækjum á sínum tíma á réttum tíma og með aðstoð vel valinna manna og er nú einn ríkasti maður heims.  Ekki fer miklum sögum af "kaupverðinu" né heldur að öðrum hafi verið leyft að bjóða þarna í fyrirtækin....neipp, þeim var skemmtilega komið fyrir hjá hinum "útvöldu".

Okkar útgáfa af þessum manni hlýtur að vera Ólafur Ólafsson í Samskipum sem "gaf" milljarð í höfuðstól um helgina og renna vextirnir af honum til mannúðarmála og líknarmála - cirka 100-150 millur árlega sem er svipað og ónefnd veisla kostaði.


er ekki tímabært að rifja aðeins upp hvernig menn fara að því að eignast rúmlega 100 þúsund milljónir á innan við 5 árum á íslandi en hrein eign Óla partýkalls er vel yfir 100 þúsund milljónir?

fyrir utan búnaðarbankann.....þá var VÍS skemmtilegt dæmi....en látum fyrrum landsbankastjóra hafa orðið:

Hann skrifar þetta í morgunblaðið 4.oktober 2006:

"Rasphúsmenn


FYRIR þremur árum ákváðu bankaráðsmenn Landsbankans hf., þeir Helgi Guðmundsson
og Kjartan Gunnarsson, að selja hinum svonefnda S-hópi hlutabréfaeign bankans í
Vátryggingafélagi Íslands, tæplega 50% eignarhlut í VÍS. Einstöku vildarvinir
fengu að fljóta með í kaupunum, þar á meðal Skinney-Þinganes á Höfn í
Hornafirði, erfðagóss Halldórs Ásgrímssonar.
Kaupverð á bréfum Landsbankans í VÍS var 6,8 milljarðar króna; sex þúsund og
átta hundruð milljónir. Réttum þremur árum síðar seldi S-hópurinn og einkavinir
þeirra þennan hlut í VÍS fyrir rúmlega 31 milljarð króna; þrjátíu og eitt
þúsund milljónir. Mismunur 24,2 milljarðar - tuttugu og fjögur þúsund og tvö
hundruð milljónir.

Sæmileg ávöxtun það, enda sá Finnur Ingólfsson um veltuna.

Þegar kaup S-hópsins og co. fóru fram hafði Landsbankinn verið einkavæddur, en
allir hlutir í honum í opinberri eign, þ.e.a.s. í eigu almennings. Það var því
í umboði ríkisstjórnar, sér í lagi bankamálaráðherrans, Valgerðar
Sverrisdóttur, sem Helgi og Kjartan seldu, en þeirra er ábyrgðin skv. lögum um
viðskiptabanka. Þau vinnubrögð kallaði einn úr Einkavæðingarnefnd, Steingrímur
Ari Arason, fráleit, sagði sig úr nefndinni; gekk brott og grét beisklega.

Það hlýtur að verða fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar eftir næstu kosningar, að
skipa opinbera rannsóknarnefnd sem fari rækilega í saumana á allri svívirðunni,
sem Einkavæðingarnefnd lét eftir sig. Auðvitað verður einkavæðing þáverandi
utanríkisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar, á Íslenzkum aðalverktökum líka tekin
með í reikninginn.

Þegar öll kurl hafa komið til grafar er spurningin ekki sú hvort hinir ábyrgu
verði dæmdir í rasphús heldur hversu langa tukthúsvist.

Framsóknarmenn höfðu um alllanga hríð unnið hörðum höndum að því að ná undir
sig Landsbankanum. Þegar núverandi Seðlabankastjóri yfirgaf stefnu sína um
dreifða eignaraðild og heimtaði að selja bankann einkavinum sínum, ærðust
framsóknarmenn og töldu Búnaðarbankann of rýran feng. Lausn var fundin með því
að gefa þeim milljarðana í VÍS til að jafna metin og var höfð í huga aðferð
Kambránsmanna að skipta þýfinu sem jafnast."


Síðan skrifar hann 14.oktober 2006 í moggan líka þetta:

"Bankaræningjar

ÞAÐ BLASIR við öllum með augu opin að vinnubrögð hinnar svokölluðu
einkavæðingarnefndar voru samfelldur fjármálalegur sóðaskapur af verstu gerð.
Þó virðast sölur ríkisbankanna taka þar öðru fram.


ÞAÐ BLASIR við öllum með augu opin að vinnubrögð hinnar svokölluðu
einkavæðingarnefndar voru samfelldur fjármálalegur sóðaskapur af verstu gerð.
Þó virðast sölur ríkisbankanna taka þar öðru fram.
Fyrir skemmstu rakti undirritaður í stuttri klausu í Morgunblaðinu aðfarir
bankaráðsmanna Landsbanka Íslands, Helga S. Guðmundssonar og Kjartans
Gunnarssonar, við sölu á hlutabréfum bankans í Vátryggingarfélagi Íslands, en
þær athafnir voru undanfari sölu bankans. Í ljós kom, að hlutabréf Landsbankans
voru seld S-hópnum svonefnda fyrir 6,8 milljarða króna. Þessi bréf seldi
S-hópurinn 3 - þremur - árum síðar fyrir rúmleg 31 milljarð króna. Mismunur
rúmir 24 milljarðar.

Á sölu hlutabréfa Landsbankans í VÍS á sínum tíma báru aðalábyrgð þeir Helgi S.
Guðmundsson og Kjartan Gunnarsson, vafalaust að undirlagi þáverandi
bankamálaráðherra, framsóknarfrúarinnar frá Lómatjörn. Ærin ábyrgð hlýtur það
að teljast, enda tukthússök.

En sagan var ekki hálfsögð. Það kemur í ljós við kaup S-hópsins á FL-Group að
einn af aðalmönnum S-hópsins reynist vera hinn sami Helgi S. Bankaráðsmaðurinn
hefir sem sagt gefið sjálfum sér milljarðana við svokallaða sölu VÍS-bréfanna
til S-hópsins.

Það er ennfremur bókað að Kjartan Gunnarsson á vænan hlut í Landsbanka Íslands
og hefir sem bankaráðsmaður í fyrrum Landsbanka ráðið miklu um það verðlag, sem
hann sjálfur naut við kaup sín í nýja Landsbankanum.

Það er eftir öðru að Helgi þessi S skuli vera formaður stjórnar Seðlabanka
Íslands - eða kannski við hæfi.

Þessi dæmi sýna ljóslega hverskonar framsóknar-forarvilpu ríkisstjórnarmenn eru
sokknir í, enda munu þeir aldrei leyfa opinbera rannsókn á málavöxtum meðan
þeir sitja á valdastólum.

Eru það kannski þessir kónar sem nýi forsætisráðherrann á við þegar hann segir
í alþingi á dögunum: ,,Ég missi ekki svefn yfir því að einhverjir aðilar hafi
hagnast á viðskiptum."

Á hinu kynni að verða stutt bið að einhverjir af bankaræningjunum yrðu andvaka.

Höfundur er fv. form. Frjálslynda flokksins."

Síðan var Icelandair tekið yfir...þeir komnir í FL group og Straum Burðaráss o.fl. skemmtilegt....

Er það ekki einsdæmi í hinum vestræna heimi að sjálfur viðskiptaráðherra hætti störfum og taki þátt í einkavæðingu sinnar eigin ríkisstjórnar - og nái á innan við 5 árum nokkur hundruð þúsund milljónum til sinna manna og stýri núna einum öflugasta fjárfestingarhóp landsins ???

Er ekki timabært að rifja aðeins upp hverjir tilheyra þessum hóp manna sem undir forystu fyrrum viðskiptaráðherra Íslands eru orðnir meðal auðugustu manna íslands....og það á vel innan við 5 árum ???


"Island er best í heimi.......við eigum öll skilið að fá Thule !"

Kv.
JS

JS (IP-tala skráð) 23.1.2007 kl. 16:50

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband