15.1.2007 | 00:44
Engin óbrúanleg gjá
Ég er sjálfsagt einn af fáum,sem ekki grætur manneklu á leikskólanum Marbakka í Kópavogi.Við amma fáum nefnilega Ingva Hrafn Hafsteinsson einn dag í viku,er hann er sendur í frí.Þegar ég skrifa þetta undir miðnætti sunnudagskvölds er hann farinn að lúlla í holu hjá ömmu sinni,en afi laumaðist fram til að horfa á Patriots og Chargers í ameríska fótboltanum. Mitt lið Green Bay var í ár hvergi nærri nokkru.Það er mikil Guðsblessun að eiga svona augastein og við látum hann stjórna okkur fullkomlega. Þykjumst stundum ætla að vera föst fyrir í einhverju,en hann veit að það er ekki agnar ögn að baki og fer sínu fram öryggið upp málað.Núna, þegar hann er tveggja ára síðan í nóvemberlok kemur eitthvað nýtt á hverjum degi í máli og skilningi.
Heyrðum frá pabba hans í kvöld frá Jedda,þar sem hann var að fara í háttinn eftir upp undir hálfs sólarhrings flug á Boeing 747 frá Surabaya í Indónesíu.Nú er Air Atlanta að skila pílagrímunum heim,eftir að þeir hafa hreinsað sálu sína í borginni helgu, Mekka.Næsta hálfa mánuð verður Hafsteinn og starfsbræður hans nokkrir staðsettir í Bangladesh,höfuðborginni Dakha,þar sem í hönd fara viðsjárverðir tímar.Áhafnirnar ferðast á milli flugvallar og hotels í fylgd alvopnaðra varða og geta sig ekkert hreyft frá hótelinu, uns þeir fljúga aftur til Jedda,eftir lögbundin hvíldartíma. Útrás íslensku fyrirtækjanna fylgir þannig líka áhætta.
Búinn að lesa ágæt viðtal Agnesar Bragadóttur við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Geng út frá því að þetta sé fyrsta formannaviðtalið í röðinni í Mogganum og síðan fylgi hinir á eftir. Damerne först og allt þannig.Ekki hægt að lesa úr viðtalinu að þarna sé um að ræða flokksforingja með buxurnar á hnjánum fylgislega.
Maður veltir auðvitað fyrir sér hvort Mogginn sé að þreifa fyrir sér um hvort einhver möguleiki sé á að Geir Haarde og Ingibjörg geti starfað saman að loknum kosningum eftir aðeins 120 daga. Ég gat ekki lesið það út úr viðtalinu að þar væri nokkur óbrúanleg gjá.
Allir sem fylgst hafa með pólitík vita að lausn á umönnunarvanda 400 aldraðra er forgangs verkefni hjá sjálfstæðismönnum og þar hefur Vilhjálmur Þ Vilhjálmsson borgarstjóri farið fremstur í flokki,enda leitun að stjórnmálamanni,sem gerþekkir þessi mál, eins og hann gerir sem stjórnarformaður hjá Eir í fjölda ára.
Jafna stöðu landsbyggðar og höfuðborgarinnar,með átaki í samgöngumálum, háhraðatengingu og menntamálu, gæti allt eins staðið í stefnuyfirlýsingu Sjálfstæðisflokksins.
Evruhjalið er bara það, hjal.Flokksbræður Ingibjargar í Danmörku og Svíþjóð telja ekki minnstu ástæðu til þátttöku í myntbandalagi.Auðvelt að stjórnarflokkar skipi enn eina öfluga nefnd til að skoða kosti og galla evruupptöku.
Ég sé enga úrslitakosti í því sem Ingibjörg segir um umhverfismál.Það eru ekkert minni umhverfissinnar í hópi sjálfstæðismanna en Samfylkingar. Auðvitað höldum við áfram að virkja orkulindir fallvatna og háhitasvæða.Þjóðir heims standa í biðröðum eftir langtíma fjárfestingum. Hjá okkur standa fjárfestar í biðröðum. Lífskjaraskerðingarstefna Andra Snæs og Ómars Ragnarssonar á engan hljómgrunn,sem einhverju máli skiptir.Þrátt fyrir að einhverjar þúsundir manna hafi rölt með Ómari niður Laugaveg,meira vegna væntumþykju,en einhverri harðlínuafstöðu gegn virkjunum og iðjuverum.
Ég er ekki í vafa um hvert svarið yrði ef fólk væri spurt hreint út.Ertu tilbúinn til að taka á þig kjaraskerðingu gegn því að virkjum ekki meira?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þú er fyrrum Moggamaður. Er þetta ekki bara ristjórn blaðsins rétt enn einu sinni að mynda ríkisstjórn á pappírnum?
Bollaspá (IP-tala skráð) 15.1.2007 kl. 08:33